Haustfundur ferðaþjónustunnar á Austurlandi var haldinn í vikunni sem leið.
Dagurinn hófst á skoðunarferð þar sem farið var frá Breiðdalsvík á Djúpavog undir handleiðslu Helgu Hrannar hjá Tinnu Adventure. Hún sagði gestum frá Breiðdalsvík og nágrenni. Gréta Mjöll, leiðsögumaður hjá Adventura, tók svo við keflinu á Djúpavogi og fór með gesti í Löngubúð, Steinasafn Auðuns og sagði gestum frá hinum ýmsu kennileitum á Djúpavogi. Að lokum komu gestir sér fyrir í tankinum þar sem Berglind Einarsdóttir söng nokkur vel valin lög áður en haldið var aftur til Breiðdalsvíkur.
Fundurinn sjálfur fór fram á Hótel Breiðdalsvík og var hann settur kl. 13:40. Sex fyrirlesarar komu fram ásamt fundarstjóra:
Sigríður Dögg, fagstjóri Íslandsstofu byrjaði á að segja gestum frá starfsemi Íslandsstofu, markaðssetningu Íslands og framtíðarhorfum í ferðaþjónustu.
Grétar Guðmundur, sérfræðingur hjá Ferðamálastofu, tók saman töluleg gögn um ferðaþjónustu og birti á skemmtilegan hátt. Sömuleiðis sýndi hann og sagði frá nýjungum í tölulegum gögnum hjá Ferðamálastofu.
Eyþór Guðjónsson hjá Sky Lagoon flutti svo síðasta erindi fyrir kaffi sem bar heitið „Draumar eru til þess að láta þá rætast“. Virkilega hvetjandi erindi þar sem hann brýndi fólk til að hugsa stórt og elta drauma sína.
Eftir kaffi flutti Berglind Einarsdóttir erindi um fyrirtæki sitt, Adventura og sína vegferð. Fyrirtækið sérhæfir sig í gönguferðum um Djúpavog og nærumhverfi og fór, á örfáum árum, úr tugum ferða á ári í fleiri en 500 ferðir á sumri.
Maciej Pietrunko, eigandi Arctic Fun, sagði okkur sína sögu. Arctic Fun er afþreyingarfyrirtæki staðsett á Djúpavogi. Þeirra stærsta vara eru kayakferðir um nærliggjandi firði og leiga á fjallahjólum. Fyrirtækið hlaut styrk frá Uppbyggingarsjóði Austurlands sem varð til þess að það gat keypt sína fyrstu kayaka.
María Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, lokaði svo fundinum með sínu erindi. Þar stiklaði hún á stóru og leit til baka á alla þá vinnu sem hefur átt sér stað í uppbyggingu Austurlands sem áfangastaðar ásamt því að skyggnast aðeins inn í framtíðina.
Að fundi loknum var gestum boðið að skoða Bílasafnið á Breiðdalsvík þar sem boðið var upp á harðfisk og bjór frá Breiðdalsvík ásamt „hot sauce“ og sinnepi frá Lefever á Djúpavogi.
Friðrik Árnason, eigandi Hótel Breiðdalsvíkur, hélt tölu og sagði frá uppgangi ferðaþjónustu á staðnum.
Ingólfur og Helga Hrönn ráku svo sögu Bílasafnsins ásamt því að leiðsegja áhugasömum um safnið og segja sögur af sýningargripunum.
Hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar á Austurlandi voru veitt. Viðurkenningin Frumkvöðullinn er veitt aðila sem sýnir áræðni og hugmyndaauðgi við uppbyggingu ferðaþjónustu og stuðlar að aukinni fjölbreytni hennar á Austurlandi. Að þessu sinni hlaut HS ferðaþjónusta á Finnsstöðum þá nafnbót. Viðurkenningin Kletturinn er veitt þeim aðila sem hefur um árabil staðið í framlínu ferðaþjónustunnar á Austurlandi, sýnt ósérhlífni og eljusemi við framgang hennar og vöxt. Það var Ferðaþjónustan á Mjóeyri sem varð fyrir valinu þetta árið.
Blásið var til veislu um kvöldið á Hótel Breiðdalsvík þar sem gestir gæddur sér á þriggja rétta veislu að hætti hússins og breski uppistandarinn Kimi Tayler fór með gamanmál fyrir hópinn. Dagurinn var virkilega vel heppnaður í alla staði og langar Austurbrú að þakka öllum þeim aðilum sem sáu sér fært um að mæta kærlega fyrir. Sömuleiðis þökkum við fyrirlesurum, Adventura, Tanna Travel og Tinnu Adventure, Hótel Breiðdalsvík, Beljanda og Lefever kærlega fyrir aðstoðina. Án ykkar hefði dagurinn ekki orðið jafn góður og raun ber vitni.
Myndir: Ingvi Örn Þorsteinsson og Fannar Magnússon.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn