Árið 2020 veitti rannsóknarsjóður Vegagerðarinnar Austurbrú styrk til að framkvæma könnun sem öllum íbúum Austurlands stóð til boða að svara sem höfðu aðgang að neti og tölvubúnaði. Niðurstöðurnar voru unnar vorið 2021 en alls tóku 544 manns þátt. Markmið þessarar rannsóknar var að afla gagna og upplýsinga svo hægt væri að greina áhrif samgönguúrbóta og ferða innan svæðis á Austurlandi. Með aukinni sameiningu sveitarfélaga skapast aukin þörf til að efla og styrkja enn frekar einingu og samstöðu milli þeirra íbúa, stofnana og stjórnsýslu aðila sem sameinast. Traustar samgöngur og vegakerfi eru forsendur þess að atvinnu- og mannlíf geti vaxið og þrifist í dreifðari byggðum landsins. Niðurstöður þessara rannsókna geta því nýst til að efla stefnumótun, áætlanagerð og jafnvel styðja við undirbúning samgönguúrbóta sem geta haft bæði jákvæð og neikvæð áhrif á ýmsa þætti byggðaþróunar fyrir þau samfélög sem þau beinast að.
Niðurstöður þessara rannsókna gefa til kynna að Fjarðarheiðargöng séu ein af mikilvægustu samgönguúrbótum sem liggja fyrir á Austurlandi. Hins vegar er munur eftir búsetu svarenda hvaða samgönguúrbætur þeir telja mikilvægastar. Borgfirðingar telja t.a.m. Borgarfjarðarveg mikilvægastan, Djúpavogsbúar nefna Öxi og Breiðdælingar Suðurfjarðaveg. Þegar kemur að heildarniðurstöðu vegna viðhorfa til samgönguúrbóta á samgönguáætlun eru jákvæðustu viðhorfin gagnvart nýrri brú yfir Lagarfljót og Borgarfjarðarvegi. Skortur á atvinnu- og menntunartækifærum er nefndur sem helstu orsök brottflutnings frá Austurlandi. Þegar kemur að ferðahegðun innan Austurlands segist um helmingur þátttakenda fara til Egilsstaða vikulega eða oftar og rúmlega þriðjungur svarenda fer til Reyðarfjarðar vikulega eða oftar. Nánar má lesa niðurstöður þessara rannsókna í skýrslunni.
Skoða skýrsluFrá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn