Í tilefni af ársfundi Samtaka þekkingarsetra SÞS stóðu samtökin fyrir málþingi á Selfossi þann 29. ágúst sl. Til umfjöllunar voru þau verkefni og hlutverk sem setrin gegna á sínum svæðum og mikilvægi þeirra í samfélaginu, ásamt þeirri staðreynd að setrin sem mynda samtökin eru með lausa samninga við Háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytið / HVIN og hafa verið svo síðan 2018, með tilheyrandi óvissu í rekstri.
Til þingsins voru jafnframt boðaðir fulltrúi ráðuneytisins, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra, auk eigenda setranna og aðstandenda. Á málstofunni voru erindi frá Ingunni Jónsdóttur formanni SÞS og framkvæmdastjóra Háskólafélags Suðurlands, Þorvari Árnasyni forstöðumanni Rannsóknarstofnunar Hí á Hornafirði og Tryggva Hjaltasyni stjórnarformanni Þekkingarseturs Vestmannaeyja auk erindis frá Áslaugu Örnu ráðherra.
Í framhaldinu af erindunum voru settar upp pallborðsumræður sem í voru auk ráðherra, Sæunn Stefánsdóttir forstöðumaður Stofnunar rannsóknarsetra HÍ og stjórnarkona í Háskólafélaginu, Austurbrú og Þekkingarsetri Vestmannaeyja; Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir þingkona Suðurkjördæmis og Teitur Björn Einarsson þingmaður Norðvestur kjördæmis.
Góður rómur var gerður að erindunum, sem og góðum og málefnalegum umræðum í pallborði. Félagar í Samtökum þekkingarsetra tóku með sér góðan stuðning og skilning á mikilvægi þeirrar vinnu sem unnin er á þeirra vegum og þakkar öllum þátttakendum fyrir komuna og innleggin.
Fundinn sátu, fyrir hönd Austurbrúar, Erna Rakel Baldvinsdóttir, Úrsúla Manda Ármannsdóttir og Tinna Kristbjörg Halldórsdóttir en sú síðastnefnda sat í stjórn SÞS sem undirbjó málþingið.
Texti og mynd: Háskólafélag Suðurlands
Skoða erindiFrá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn