Uppbyggingarsjóður Austurlands. Úthlutun í desember 2023.

Í gær var úthlutað úr Uppbyggingarsjóði Austurlands með hátíðlegri viðhöfn í Sláturhúsinu – menningarmiðstöð – á Egilsstöðum. Alls bárust 115 umsóknir upp á 222 milljónir, 55 umsóknir á sviði atvinnu og nýsköpunar, 54 á sviði menningar og 6 umsóknir um stofn- og rekstrarstyrki. Úthlutunarnefnd samþykkti styrkveitingar til 67 verkefna. Alls var sótt um styrki að upphæð um 222 m.kr. en til úthlutunnar að þessu sinni voru 65 m.kr. Áætlaður heildarkostnaður allra verkefna sem sótt var um var nærri 660 m.kr. Þá fjölgaði umsóknum í sjóðinn um 15% milli ára, nokkuð jafnt milli flokka, sem endurspeglar bæði grósku í atvinnu og nýsköpun, sem og frjótt menningarstarf á Austurlandi.

Sinfóníur og samfélagseldhús

Meðal styrkhafa í ár er Sinfóníuhljómsveit Austurlands sem ætlar að halda tónleika vorið 2024 þar sem hún frumflytur nýtt verk eftir austfirska tónlistarmanninn Charles Ross. Hljómsveitin pantaði tónverk frá Charles árið 2021 og í vor munu Austfirðingar og aðrir gestir heyra afraksturinn. Einnig mun hljómsveitin flytja hina stórfenglegu sjöundu sinfóníu Ludwig van Beethoven á sömu tónleikum.

Austfirskar krásir, klasasamstarf matvælaframleiðenda og veitingahúsa á Austurlandi, styðja við matvælaframleiðendur á Austurlandi með því að koma vörum þeirra á framfæri í dagvöruverslunum fjórðungsins. Gangi verkefnið eftir mun austfirskum vörum verða stillt upp á áberandi stað í verslunum í landshlutanum undir merkingunni „Láttu stjörnuna leiða þig/Reach for the Austurland Star“ og sýnileiki austfirskra matvara mun aukast til muna.

Þá fékk Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði styrk til að þróa svonefnt sköpunareldhús. Ætlunin er að byggja upp matvælaeiningu Sköpunarmiðstöðvarinnar sem samanstanda mun af vottuðu samfélagseldhúsi og kaffibar sem nýtast mun til matvælaframleiðslu, námskeiðahalds, matarkynninga og annarra viðburða.

Gerð nýrrar sóknaráætlunar brýn

Þetta er í síðasta sinn sem úthlutað er úr Uppbyggingarsjóðnum samkvæmt núgildandi sóknaráætlun Austurlands en hún rennur út í lok næsta árs. Þuríður Lillý Sigurðardóttir, varaformaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, ávarpaði samkomuna og sagði m.a. að mikilvægt væri að fleiri ráðuneyti tækju þátt í fjármögnun nýrrar sóknaráætlunnar. „Hún er mjög mikilvæg fyrir Austurland sem og aðra landshluta og brýnt að halda áfram á svipaðri braut og verið hefur. Mikilvægt er að fleiri ráðuneyti taki þátt í nýrri Sóknaráætlun landshluta með beinu fjármagni og möguleikar á auknu fjármagni skoðaðir til eflingar atvinnulífs úti á landi, sérstaklega í þeim landshlutum sem lengst eru frá höfuðborgarsvæðinu. Við þurfum meðbyr til áframhaldandi vinnu við eflingu landsbyggðarinnar með fjölbreyttu og öflugu atvinnulífi,“ var meðal þess sem Þuríður sagði í ræðunni sinni.

Um verkefnin 67 sem hlutu styrk úr sjóðnum í gær má lesa hér.

Nánari upplýsingar


Gabríel Arnarsson

857 0804 // [email protected]


Signý Ormarsdóttir

864 4958 // [email protected]


Tinna Kristbjörg Halldórsdóttir

857 0801 // [email protected]