Aðalfundur Samtaka smáframleiðanda matvæla og Bein frá býli var haldinn á Hótel Hamri í Borgarfirði, föstudaginn 8. mars. Fulltrúar Austfirðinga voru á svæðinu, bæði smáframleiðingur sem og fulltrúi frá Austurbrú, Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir.
Áhugaverðar umræður sköpuðust undir liðnum önnur mál, aðallega sem snéru á því hvernig samtökin gætu aflað meiri tekna til að byggja áfram á þeim góða grunni sem nú þegar hefur verið lagður. Tveir framleiðendur frá Austurlandi eru nú í stjórn samtakanna; Þorbjörg Ásbjörnsdóttir í Geitagott er í aðalstjórn BFB og Dagrún Drótt Valgarðsdóttir hjá Könglum í varastjórn SSFM.
Að loknum fundi fór hópurinn í skoðunarferð um Borgarfjörð og Borgarnes. Fyrsta stopp var á Grímsstöðum þar sem byggt hefur upp fullvinnslueldhús með örsláturhúsi. Þá var farið í Geitfjársetur Íslands að Háafelli. Þar hefur verið byggt upp stærsta geitabú landsins og seldar vörur beint frá býli. Þriðja stoppið var í Brákarey í Borgarnesi. Þar hefur verið opnað lítið sláturhús sem tekur við fé frá bændum í Borgarfirði. Að lokum var komið við í Ljómalind í Borgarnesi. Þar er handverksmarkaður, rekinn af matarhandverks- og handverksfólki á svæðinu, og mjög fjölbreyttar vörur að finna.
„Ferð sem þessi er ómetanleg í áframhaldandi uppbyggingu á verkefnunum, Matarauði Austurlands, Landsins gæðum og Vatnaskilum þar sem upplifunin og lærdómurinn munu nýtast hópnum sem mætti frá Austurlandi í þróun og nýsköpun vara úr Austurlandsins gæðum,” segir Halldóra Dröfn um ferðina.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn