Tilgangur geðræktarmiðstöðvarinnar er fyrst og fremst að efla úrræði fyrir fólk sem á í erfiðleikum vegna geðrænna áskorana, áfalla og/eða félagslegrar einangrunar. Með verkefninu er ætlunin að skapa stuðningsríkt samfélag þar sem fólk getur sótt sér aðstoð, tekið þátt í endurhæfandi úrræðum og fengið fræðslu um leiðir til að styrkja eigin andlega heilsu. Mikilvægi slíks úrræðis er óumdeilanlegt að mati allra sem þekkja til þessa málaflokks á Austurlandi.

Á næstunni hefst undirbúningsvinna við að kortleggja markhópa sem úrræðið mun gagnast og meta hvaða aðferðir henti best til að veita þjónustu sem skilar raunverulegum árangri. „Við sjáum þetta sem gríðarlega mikilvægt skref í að efla geðheilbrigðis- og geðræktarúrræði fyrir Austfirðinga, sem opnar á aðstoð og aðgengi fyrr í veikindaferlinu, þar sem ekki þarf að bíða eða fara í gegnum flókið matsferli,“ segir Tinna K. Halldórsdóttir, yfirverkefnastjóri hjá Austurbrú. „Aðgengi að stuðningsúrræðum á Austurlandi þarf að efla og því er þetta verkefni kærkomið skref í bættri geðheilbrigðisþjónustu og það er mjög dýrmætt að þessi hópur samstarfsaðila komi að því.“

Styrkurinn frá Alcoa Foundation gerir mögulegt að hefja þessa vinnu af krafti og koma úrræðinu á fót á næstu mánuðum. „Heilsa og öryggi eru hjartans mál fyrir Alcoa og sú vitundarvakning sem orðið hefur um geðheilbrigðismál á síðustu árum undirstrikar mikilvægi þess að horfa heildrænt á heilsu. Við erum stolt af því að styðja við samfélagið okkar með þessum hætti,“ segir Vigdís Diljá Óskarsdóttir, stjórnandi samskipta- og samfélagsmála hjá Alcoa Fjarðaáli.

Næstu skref í verkefninu eru sem fyrr segir að greina núverandi þjónustuþörf svo hægt sé að byggja upp nauðsynleg úrræði og tryggja að geðræktarmiðstöðin verði varanlegur hluti af samfélaginu og að vonum skapa stað þar sem fólk getur fundið styrk og úrræði til að taka virkan þátt í samfélaginu á ný.

Myndatexti: Hluti af hópnum sem vinnur að verkefninu auk fulltrúa frá Alcoa Fjarðaáli. F.v. Nína Hrönn Gunnarsdóttir og Tinna K. Halldórsdóttir frá Austurbrú, Linda E. Pehrsson hjá Starfsendurhæfingu Austurlands og Vigdís Diljá Óskarsdóttir hjá Alcoa Fjarðaáli.

Nánari upplýsingar


Tinna Kristbjörg Halldórsdóttir

857 0801 // [email protected]

Fleiri fréttir

Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!

Skoða fréttasafn