Fulltrúar Markaðsstofa landshlutanna komu saman til tveggja daga vinnufundar 12. -13. nóvember síðastliðinn. Slíkir staðfundir hafa orðið fastur liður í samstarfi landshlutanna undanfarin ár og skiptast stofurnar á að hafa umsjón með skipulagningu. Fyrir ári síðan tók Markaðsstofa Austurlands (Áfangastaðastofa Austurlands), sem er hluti af starfsemi Austurbrúar, á móti hópnum og að þessu sinni buðu Vestfirðir heim.
Alexandra Tómasdóttir og Bryndís Fiona Ford héldu vestur fyrir hönd Austurbrúar. „Það er ómetanlegt að koma saman, sjá hvað aðrir eru að gera og fá tækifæri til að ræða áskoranir og tækifæri augliti til auglitis. Svona ferðir minna okkur á hversu sterkur samtakamátturinn er þegar landshlutarnir vinna að sama markmiði,“ sagði Alexandra eftir ferðina.
Hópurinn hittist á Hólmavík þar sem farið var yfir stöðu og framtíðarsýn áfangastaðarins Vestfjarða, með sérstaka áherslu á Strandir. Þar hefur ímynd svæðisins um árabil tengst göldrum og fornum sögnum. Galdrasýningin, brugghúsið Galdur og væntanleg hóteluppbygging sem nýtir menningararfinn í markaðssetningu eru allt dæmi um sérstöðu svæðisins. Eftir heimsóknina á Hólmavík hélt hópurinn á Hótel Laugarhól sem hjónin Viktoría Rán Ólafsdóttir og Hlynur Gunnarsson reka. Þau hafa unnið ötult að því að byggja upp heilsársstarfsemi. Á staðnum er sundlaug, góð aðstaða fyrir hópa og lítill veislusalur. Forstöðumenn héldu fund síðdegis á meðan verkefnastjórar nýttu tímann í umræðuvinnu og tengslamyndun.
Seinni dagurinn var helgaður fræðslu og fundarhöldum. Fyrst kynnti Helen Hannesdóttir frá Ferðamálastofu fyrirhugaðar endurbætur á gagnagrunni stofnunarinnar. Að því loknu fjallaði Tryggvi Freyr Elínarson frá Datera um hvernig nýta megi gervigreind til að bæta frammistöðu og aðgengi vefsíðna á tímum gervigreindar. Í lok dags voru þátttakendur komnir með skýrari sýn á hvernig efla megi stafræna innviði og nýta þá betur í daglegu starfi.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn