Austurland hefur verið valið til þátttöku í Pathways2Resilience, einu stærsta verkefni Evrópusambandsins á sviði aðlögunar að loftslagsbreytingum. Markmið þess er að styðja svæði sem standa frammi fyrir auknum loftslagstengdum áskorunum.
Alls voru 62 svæði víðs vegar um Evrópu valin í þessari annarri þátttökulotu verkefnisins. Með þeim bætist Austurland í hóp hundrað sveitarfélaga/landsvæða sem þegar taka þátt í verkefninu. Þátttakendur fá aðgang að fræðslu, ráðgjöf og verkfærum sem styðja við markvissa og langtímamiðaða aðlögun að áhrifum loftslagsbreytinga. Markmið verkefnisins er að styrkja seiglu svæða gagnvart loftslagsvá, meðal annars með samþættri stefnumótun, jafningjanámi og miðlun þekkingar milli svæða sem glíma við sambærilegar áskoranir. Helstu áherslur nývalinna svæða snúa að flóðahættu, hitaálagi og þurrkum, sem hafa áhrif á innviði, öryggi almennings og samfélagslega starfsemi.
Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA), segir val Austurlands vera mikilvæga viðurkenningu:
„Við fögnum því að Austurland hafi verið valið til þátttöku í Pathways2Resilience. Svæðið stendur frammi fyrir vaxandi loftslagstengdum áskorunum, sérstaklega í dreifðum byggðum og strandsamfélögum. Þátttakan mun styðja við eflingu þekkingar, þróun hagnýtra lausna og uppbyggingu langtíma aðlögunargetu á Austurlandi.“
Hvert þátttökusvæði fær 210.000 evrur í styrk auk aðgangs að sérsniðinni leiðsögn sérfræðinga, jafningjanámi og handleiðslu. Þátttakendur hafa 18 mánuði til að móta heildstæða loftslagsaðlögunarstefnu ásamt aðgerða- og fjárfestingaáætlun.
Pathways2Resilience er síðasta úthlutun úr 21 milljón evra styrktarkerfi verkefnisins, sem er ætlað að styðja við innleiðingu Græna sáttmála Evrópusambandsins og efla loftslagsþol svæða víðs vegar um Evrópu.
Þetta verkefni hefur hlotið styrk úr rannsóknar- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins, Horizon Europe, innan verkefnisins Pathways2Resilience, samkvæmt styrksamningi nr. 101093942. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ber ekki ábyrgð á notkun þeirra upplýsinga sem hér koma fram.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn