Austurbrú hefur stórt hlutverk í sí- og endurmenntun á Austurlandi og við leggjum mikla áherslu á að leiðbeinendur okkar fái góða þjálfun. Af þessari ástæðu bjóðum við upp á kennslufræðinámskeið fyrir leiðbeinendur fullorðinna námsmanna á Reyðarfirði í dag.
Boðið er upp á almenna kennslu í kennslufræði fyrir leiðbeinendur en svo eru í gangi líka sérsniðin námskeið fyrir leiðbeinendur í stóriðjuskóla Austurbrúar og Alcoa og hins vegar fyrir leiðbeinendur í íslensku sem annað mál.
Kennarar á námskeiðunum eru Hrannar Baldursson og Nichole Leigh Mosty sem koma bæði frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.
Á námskeiðinu „Kennslufræði fullorðinna“ er lögð áhersla á að dýpka skilning leiðbeinenda á grundvallarforsendum náms fullorðinna, skipulagi þess og framkvæmd. Á námskeiðinu eru þátttakendur hvattir til að beita gagnrýninni hugsun og jafningafræðslu og að haga sinni kennslu þannig að hún sé viðeigandi fyrir líf og störf fullorðins fólks.
Á námskeiði fyrir íslenskukennara er lögð áhersla á mikilvægi þess að leiðbeinendur rækti með sér viðhorf eins og menningarlega næmni, samkennd, hvatningu, sveigjanleika, skilvirk samskipti, lífstíðarnám og hófsemi. Auk þess fá leiðbeinendur að kynnast grundvallarhugtökum og aðferðum sem eru gagnlegar við íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytjendur. Námskeiðin eru einstaklega vel heppnuð og umræðurnar voru líflegar þegar ljósmyndara bar að garði.
Efri mynd: Hrannar Baldursson kennir leiðbeinendum í Stóriðjuskóla Alcoa og Austurbrúar.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn