Í dag var undirritaður viðaukasamningur við samning um Sóknaráætlun Austurlands á milli umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis og Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA). Markmiðið með viðaukasamningi þessum er að styðja við nýsköpunarverkefni tengd hringrásarhagkerfinu með viðskiptahraðli sem bera mun heitið „Austanátt“.
Undirritunin fór fram á skrifstofum Austurbrúar á Vonarlandi á Egilsstöðum í dag en Guðlaugur Þór Þórðarson, orku- og loftslagsráðherra, var staddur á Austurlandi í dag m.a. af þessu tilefni.
Guðlaugur Þór sagði það afar ánægjulegt að koma austur í heimsókn af þessu tilefni. Hann fékk sérstaka kynningu á Svæðisskipulagi Austurlands og að henni lokinni var samningurinn undirritaður. „Þessi samningur er upphaf að góðu samstarfi sem við verðum og ætlum að eiga við þetta öfluga samfélag sem hér er,“ sagði hann um samninginn en hann gildir fyrir árið 2023 og telur samtals 10 milljónir kr.
Markmiðið er m.a. að auka hvata til nýsköpunar á Austurlandi sem felur í sér að komið verður á laggirnar nýsköpunarhraðli fyrir frumkvöðla á Austurlandi, verkefni sem bera mun heitið „Austanátt“.
Austurbrú mun fara með framkvæmd samningsins fyrir hönd SSA. Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri SSA, segir að þetta skipti máli fyrir uppbyggingu hringrásarhagkerfis á Austurlandi:
„Það er mikil gróska í nýsköpun á Austurlandi og þessi viðaukasamningur gerir okkur enn betur kleift að styðja við bakið á öflugum frumkvöðlum hér í landshlutanum sem vinna að verkefnum sem hafa nýsköpun og þróun á grunni hringrásarhagkerfis að leiðarljósi. Þetta skiptir landshlutann miklu máli og er lykilstef í Svæðisskipulagi Austurlands 2022 – 2044 sem tók gildi sl. haust.“
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn