Innviðaráðherra hefur úthlutað 18 milljónum króna til sex verslana í dreifbýli fyrir árið 2026. Stöðfirska verzlunarfélagið hlaut tveggja milljóna króna styrk vegna opnunar dagvöruverslunar á Stöðvarfirði. Verkefnið er liður í þeirri uppbyggingu sem unnið hefur verið að innan Sterks Stöðvarfjarðar, þar sem eitt af markmiðum hefur verið að tryggja áframhaldandi verslunarþjónustu í þorpinu eftir að Brekkan var seld í byrjun árs 2023.
Verslunin verður staðsett í gamla kaupfélagshúsinu við Fjarðabraut 41, sem nú er í endurbyggingu á vegum Byggðastofnunar. Þar mun dagvöruverslun starfa samhliða gisti- og kaffihúsi, sem skapar hagkvæmni og sameiginlega nýtingu aðfanga.
Síðan síðasta verslun hætti rekstri árið 2023 hafa íbúar þurft að sækja dagvöru utan byggðarlagsins. Með opnun verslunarinnar verður endurvakin mikilvæg grunnþjónusta sem styrkir jafnframt sjálfbærni, byggðafestu og atvinnu á Stöðvarfirði.
Valborg Ösp Árnadóttir Warén, verkefnastjóri Sterks Stöðvarfjarðar, segir:
„Eitt af markmiðum Sterks Stöðvarfjarðar hefur frá upphafi verið að styrkja verslunarrekstur í þorpinu. Þegar Brekkan lokaði varð það markmið mjög brýnt. Að sjá þetta skref nú raungerast skiptir samfélagið miklu máli og styður við aðrar uppbyggingaráherslur verkefnisins.“
Verkefnið fellur að aðgerð A.9 í stefnumótandi byggðaáætlun 2022–2036, sem stuðlar að viðhaldi og uppbyggingu verslana í dreifðum byggðum. Þá skapar staðsetning Stöðvarfjarðar við hringveg 1 tækifæri til viðbótartekna vegna ferðaþjónustu, ekki síst í tengslum við Steinasafn Petru sem dregur að sér tugþúsundir gesta á hverju ári.
Heildarkostnaður verkefnisins er 4,5 milljónir króna og er opnun verslunarinnar áætluð í apríl 2026. Styrkurinn nemur 80% af heildarfjárþörf og verður nýttur til innréttinga, kæla, kassakerfis og upphafsvörukaupa.


Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn