Úthlutað verður úr Uppbyggingarsjóði Austurlands þann 12. desember í húsnæði Vök Baths á Egilsstöðum. Opið var fyrir umsóknir frá 11. september til 31. október og alls bárust 113 umsóknir sem er svipaður fjöldi umsókna og í fyrra. Sótt var um tæplega 234 milljónir kr. sem er heldur meira en á síðasta ári þegar sótt var um rétt tæplega 219 milljónir kr. Að venju var ýmist sótt um menningar- eða atvinnuþróunarstyrki. Fagráð sjóðsins eru þessa dagana að fara yfir umsóknir en eins og alltaf er greinilegt að það er margt í deiglunni fyrir austan. „Umsóknir bárust að meðaltali fyrr en síðustu ár sem bendir til aukinna gæða,“ segir Gabríel Arnarsson, verkefnastjóri Uppbyggingarsjóðs. „Summa styrkbeiðna er líka hærri en í fyrra og eykst jafn og þétt milli ára á sama tíma og fjármagn til úthlutunar stendur í stað.“
Úthlutunarathöfnin hefst klukkan 16 og er öllum opin.
Mynd: Frá úthlutunarathöfn Uppbyggingarsjóðs Austurlands árið 2022 sem fram fór á Eskifirði.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn