Alls bárust 118 umsóknir sem er svipað og verið hefur en að jafnaði berast árlega 110-130 umsóknir til sjóðsins. Áætlaður heildarkostnaður verkefna var um 540 m.kr. en sótt var um styrki fyrir 186 m.kr, þar af 96 m.kr. til menningarmála og 91 m.kr. til nýsköpunar og atvinnuþróunar.

Til úthlutunar að þessu sinni voru 57.800.000 kr. og skiptist fjármagnið þannig að 27 verkefni á sviði menningar hlutu styrki sem námu 27 milljónum og 20 styrkir til atvinnuþróunar upp á alls 24,8 milljónir. Að auki voru veittar 6 milljónir til stofn- og rekstarstyrkja á sviði menningar.

Mikill fjölbreytileiki er í verkefnunum eins og áður. Sérstaklega er litið til þess að verkefni tengist skýrt áherslum nýrrar Sóknaráætlunar Austurlands sem snúa að málum á sviði menningar og atvinnuþróunar auk tengingar við umhverfismál. Áherslurnar felast í stuðningi við menningarverkefni sem styrkja atvinnustarfsemi á sviði lista og menningar, verkefni sem styðja við menningarstarf barna og ungmenna og verkefni sem draga fram og efla áhugaverða þætti í menningararfleifð. Áherslur sóknaráætlunar snúa einnig að því að styðja við og efla nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi, verkefni sem fela í sér skref að aukinni sjálfbærni og fullvinnslu á Austurlandi þá sérstaklega úr skógarafurðum og á sviði matvælaframleiðslu sem og verkefni sem ríma við hugmyndafræði verkefnisins Áfangastaðarins Austurlands.

Hæsta styrkinn í ár hlaut Hallormsstaðaskóli, 4 milljónir til uppbyggingar tilraunaeldhúss við skólann. Sauðagull ehf., hlaut hæsta samanlagðan styrk til tveggja verkefna; þróunar á sauðamjólkurís og til markaðssetningar á afurðum sínum, alls 4,1 milljón króna. Hæsta styrk einstaklings hlutu annars vegar Elís Pétur Elísson fyrir Beljandi Brewery Barrel Room, 3 milljónir, og hins vegar Þór Vigfússon, 2,8 milljónir fyrir opnun safns um alþjóðlega samtíma- og nútímalist á Djúpavogi.

Sjá lista yfir styrkþega hér.

Nánari upplýsingar


Tinna Kristbjörg Halldórsdóttir

857 0801 // [email protected]


Signý Ormarsdóttir

470 3811 // [email protected]