Dagskrá Sumartónleikaraðar Bláu kirkjunnar liggur fyrir en að venju verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá og gæðin fyrsta flokks. Tónleikaröðin hefst miðvikudagskvöldið 12. júlí með tónleikum bandarísku hljómsveitarinnar The Hevreh Ensemble og lýkur þegar bjartasta vonin í íslensku þjóðlagasenunni, Blood Harmony, treður upp 9. ágúst.
Eins og alltaf verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá í sumar en öll sem koma fram í sumar eiga það þó sammerkt að vera tónlistarfólk í fyrsta gæðaflokki. Það verður einstaklega spennandi að hefja leika með The Hevreh Ensemble frá New York og í kjölfarið fylgja svo listamenn sem enginn verður svikinn af. Jón Ólafsson og Hildi Völu þekkja allir Íslendingar enda hafa þau verið áberandi í íslensku dægurtónlistarsenunni um árabil og svo rekur hver stórviðburðurinn annan fram til 9. ágúst.
Hinn hálfseyðfirski Íslenski saxófónkvartett verður með nýtt og verulega spennandi prógramm þann 26. júlí og síðan er afskaplega ánægjulegt að tilkynna komu sigurvegara færeysku tónlistarverðlaunanna 2. ágúst en þá mun Guðrið Hansdóttir, frá bænum Argir rétt sunnan við Þórshöfn, flytja brot af sínum bestu lögum og að endingu mætir hljómsveitin Blood Harmony til leiks en þau hafa vakið athygli fyrir einstaklega fallega og aðgengilega þjóðlagatónlist sem svíkur engan.
Sumartónleikaröð Bláu kirkjunnar á Seyðisfirði er fyrir löngu búin að festa sig í sessi sem fastur viðburður í menningarlífi landshlutans. Við hvetjum heimamenn og aðra gesti til að heimsækja Seyðisfjörð í sumar. Það er leitun að jafn spennandi áningastað fyrir dreifbýlisbóhema og lífsglaða heimsborgara!
Sumartónleikaröð Bláu kirkjunnar er með öfluga bakhjarla og að þessu sinni hefur hún fengið styrki frá Uppbyggingarsjóði Austurlands, sveitarfélaginu Múlaþingi, Tónlistarsjóði Rannís og Síldarvinnslunni.
Við þökkum kærlega fyrir okkur! Án aðstoðar væri erfitt að bjóða upp á jafn glæsilega dagskrá og raun ber vitni.
Nánari upplýsingar um tónleikana í sumar fást á heimasíðu Sumartónleikaraðar Bláu kirkjunnar.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn