Fyrr í mánuðinum fór verkefnastjóri á vegum Austurbrúar (Markaðsstofu Austurlands) á ferðakaupstefnuna ITB Berlín í Þýskalandi. Þetta er ein ein stærsta ferðasýning í heimi og auk þess mikilvægur vettvangur umræðu um stefnu og strauma í ferðaþjónustu.
Tilgangur viðveru verkefnastjóra á slíkri ferðakaupstefnu er margþættur, m.a. upplýsingagjöf til áhugasamra ferðaskrifstofa, ítarlegir fundir um Austurland við ferðaskrifstofur (aðallega þýskar) og samtal við flugfélög og aðra aðila tengda flugrekstri vegna áframhaldandi vinnu við að koma á beinu flugi á milli Egilsstaðaflugvallar og Evrópu. Ásamt því að vera stærsta ferðasýning í heimi er ITB Berlín mikilvægur vettvangur í umræðu um stefnu og strauma í ferðaþjónustu og fjöldi fyrirlestra og pallborða í boði fyrir gesti á meðan sýningunni stendur. Þá sótti verkefnastjóri viðburð á vegum Höfuðborgarstofu og íslenska sendiráðsins í Berlín þar sem þýskum fjölmiðlum var boðið að koma og kynna sér Ísland. Sömuleiðis átti verkefnastjóri samtöl við íslenskar ferðaskrifstofur og stoðkerfi.
„Það eru ekki eingöngu fundirnir og tengslamyndunin sem eiga sér stað á ferðasýningunni sem laðar fólk að, heldur er sömuleiðis mikil dagskrá spennandi fyrirlestra og pallborða,” segir Sigfinnur Björnsson, verkefnastjóri hjá Austurbrú. Yfirskrift sýningarinnar í ár var „Pioneer the Transition in Travel & Tourism. Together“ og voru alls sautján þemu tekin fyrir á sýningunni.
Sigfinnur sat tvo fyrirlestra um framtíðarhorfur í ferðaþjónustu og „trendin“ fyrir komandi ár. „Mikil áhersla var á gervigreind og hvernig hún gæti verið að taka yfir m.a. í leiðsögðum hópferðum og „self-drive“ ferðum,“ segir hann. „Áfangastaðir utan alfaraleiða halda áfram að laða að og skortur á starfsfólki virðist vera orðið alþjóðlegt vandamál í ferðaþjónustu. Þá var skemmtilegt að sjá Stuðlagil tekið fyrir sem dæmi um áfangastaði sem vekja upp ævintýraþrá.“
Mynd að ofan: Sigfinnur Björnsson, verkefnastjóri, við Íslandsbásinn á ITB Berlin þann 3. mars sl.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn