Í gær, miðvikudaginn 19. febrúar, fór fram fjölmennur samráðsfundur aðila sem starfa að öryggis- og velferðarmálum á Austurlandi. Fundurinn, sem var haldinn undir merkjum verkefnisins Öruggara Austurland, hafði það að markmiði að efla samstarf, samræma verklag og styrkja viðbrögð við heimilisofbeldi og öðrum velferðarmálum í fjórðungnum.
Verkefnið Öruggara Austurland er hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn heimilisofbeldi og er það unnið í samstarfi lögreglu, barnaverndar, félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu, sjúkraflutninga og Austurbrúar. Lögreglan á Austurlandi leiðir verkefnið en ríkislögreglustjóri styður við það með fræðslu og samhæfingu.
Á fundinum komu saman um 50 fulltrúar frá ólíkum stofnunum og þjónustuaðilum sem tengjast öryggismálum og félagslegri velferð. Sérstök áhersla var lögð á að samhæfa verklag í heimilisofbeldismálum og tryggja að allir sem koma að slíkum málum – frá lögreglu og barnavernd til heilbrigðisstarfsfólks og félagsþjónustu – þekki verkferla og vinnulag. Fundinn sat líka Nína Hrönn Gunnarsdóttir frá Austurbrú en hún vinnur að stofnun farsældarráðs á Austurlandi sem leggur áherslu á snemmbæra íhlutun fjölskyldunnar í heild.
Margrét María Sigurðardóttir, lögreglustjóri á Austurlandi, segir að mikil þörf sé fyrir slíka samvinnu. „Það skiptir máli að eiga faglegt samtal milli ólíkra aðila, svo allir átti sig á hlutverki sínu og hvernig við getum unnið saman á sem skilvirkastan hátt,“ segir Margrét María. Hún nefnir einnig að sjúkraflutningamenn séu nýr hópur í þessu samráði en þeir koma stundum fyrstir á vettvang í aðstæðum þar sem ofbeldi á sér stað.
Fundargestir unnu saman að dæmisögum og tilfellagreiningum þar sem fundarmenn fóru yfir möguleg viðbrögð og samhæfingu. Að fundi loknum voru niðurstöður kynntar og rætt hvernig hægt sé að bæta samstarfið enn frekar.
Öruggara Austurland er langtímaverkefni sem byggir á samvinnu sveitarfélaga, ríkisaðila og annarra lykilstofnana. „Markmiðið er að fyrirbyggja heimilisofbeldi og tryggja að allir viti hvert þeir geti leitað eftir aðstoð,“ segir Margrét María.
Næsti fundur verkefnisins er áætlaður síðar á árinu en vinnuhópar munu funda reglulega á milli stóru fundanna til að fylgja eftir þeim tillögum sem lagðar voru fram.
Nína Hrönn Gunnarsdóttir
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn