Stöðugreining
Staðan í dag
Grunnskólar eru í öllum þéttbýliskjörnum sveitarfélaganna á Austurlandi. Alls eru þrír framhaldsskólar á Austurlandi; Menntaskólinn á Egilsstöðum, Hallormsstaðaskóli og Verkmenntaskóli Austurlands. Austurbrú rekur framhaldsfræðslu og á Seyðisfirði starfar LungA-skólinn, listalýðháskóli. Enginn háskóli er á Austurlandi en Rannsóknasetur Háskóla Íslands er á Egilsstöðum og verið er að þróa háskólaútibú í Fjarðabyggð þar sem kennd verður hagnýt iðnaðartæknifræði.
Íbúaþróun í 20 ár
Á Austurlandi voru 10.663 íbúar 1. janúar 2019. Þeim fjölgar jafnt og þétt eftir að jafnvægi komst á íbúaþróun fyrir tæpum 10 árum eftir stóriðjuframkvæmdirnar 2003-2009.
Þróun síðustu 10 ára: Hlutfallsleg breyting á íbúafjölda
Íbúaþróun hefur ekki dreifst jafnt á svæðinu og hefur fjölgunin verið bundin við Reyðarfjörð og Fljótsdalshérað að mestu leyti en þó hefur orðið örlítil fjölgun á Fáskrúðsfirði og Eskifirði.
Kynjahlutfall
Hlutfall karla og kvenna í landshlutanum er eins og annars staðar á landsbyggðinni þannig að karlar eru fleiri en konur, en þeir eru 600 fleiri en konurnar. Jafnast er kynjahlutfallið á Fljótsdalshéraði og Seyðisfirði en ójafnast á Reyðarfirði, Breiðdalsvík og Eskifirði.
Aldur íbúa
Meðalaldur íbúa fer hækkandi og oft vantar ákveðið aldursbil inn í mannfjöldapíramída þegar unga fólkið fer burtu til náms og starfa annars staðar.
Innflytjendur
Hlutfall erlendra ríkisborgara af heildaríbúafjölda Austurlands hefur vaxið jafnt og þétt. Nú eru tæplega 10% íbúa Austurlands af erlendum uppruna, langflestir pólskir eða tæplega 600 manns. Sú fjölgun sem orðið hefur á íbúum Austurlands er fyrst og fremst byggð upp á þessum hópi innflytjenda sem hefur aðallega sest að í Fjarðabyggð. Á Eskifirði og Reyðarfirði eru 16%-18% íbúa af erlendum uppruna sem hefur töluverð áhrif í smáum samfélögum. Í hópi innflytjendanna eru karlar mun fjölmennari og eru þeir til að mynda helmingi fleiri en konurnar á Eskifirði. Á Fljótsdalshéraði eru um 4% íbúa af erlendum uppruna og er hlutfall karla og kvenna nokkuð jafnt.