Sköpunin finnur sér leið

„Þetta er barnaleikfang sem ég gerði upphaflega fyrir dóttur mína en baksagan er flóknari. Þetta heitir á ensku „stacking toy“ en þá er sama formið endurtekið og staflað upp með mismunandi hætti,“ svarar Íris umbeðin að lýsa leikfanginu.

Forsaga þessa verkefnis tengist miklum umbrotatímum í lífi Írisar. Í maí 2019 missti hún manninn sinn, Kolbein Einarsson, en hann hafði veikst alvarlega haustið 2017 þegar þau höfðu nýverið flutt austur frá Reykjavík. Þau höfðu fest kaup á Framnesi, húsi og jörð sem hafði lengi verið í eigu fjölskyldu Írisar en þarfnaðist orðið viðhalds. Skömmu fyrir veikindin höfðu þau gift sig og komið hafði í ljós um svipað leyti að Íris var ófrísk og áttu þau dótturina Önnu árið 2018. Hún var fimmtán mánaða þegar Kolbeinn lést.

 En hvernig kviknaði hugmyndin?

„Ég var að hlusta á hljóðbókina Að breyta fjalli haustið 2019. Ég var að fylgjast með dóttur minni að leika sér á gólfinu, var örugglega að brjóta saman þvott líka eða eitthvað álíka, og þá fór ég að hugsa um hvernig ég gæti fært fjallið nær henni því veikindin höfðu komið í veg fyrir að við fengjum að búa í húsinu okkar undir fjallinu. Mig langaði að hún þekkti fjallið sitt,“ segir Íris og hugmyndin var fædd.

„Þá skissaði ég upp þetta endurtekna form, aftur og aftur, og hugsaði að þetta gæti verið skemmtilegt. Ég teiknaði það svo í framhaldinu á einhverja spýtu sem var niðrí kjallara, sagaði út og svo málaði ég þetta með matarlit enda var dóttir mín aðeins eins og hálfs árs og gæti sett þetta í munninn,“ segir Íris sem tók mynd af leikfanginu og setti á Instagram þar sem viðbrögðin voru mikil og sterk, bæði frá heimamönnum en líka frá fólki sem þekkti ekki til staðarins og fannst það einfaldlega fallegt.

Í framhaldinu sótti hún um styrk hjá Uppbyggingarsjóði Austurlands til áframhaldandi þróunar á leikfanginu en hægt er að stafla því með ýmsum hætti sem fyrr segir og „breyta fjalli“ að vild. Þannig kallast leikfangið á við bókina frægu sem Stefán Jónsson, rithöfundur og alþingismaður, skrifaði og fannst Írisi það gefa verkinu aukna dýpt.

Að setja barnaleikfang á markað er flóknara en margan kann að gruna. Senda þarf prufueintök á vottunarstofur sem meta hvort þau séu örugg, hvort eiturefni finnist í málningu eða viðnum og ýmislegt annað. „Ég er aðeins að njóta góðs af Covid,” segir Íris. „Þá fengu öll verkefnin sem fengu styrk aðeins rýmri tíma og slakari taum og það hefur reynst mér vel því orka fólks í sorgarúrvinnslu getur verið mjög sveiflukennd.”  segir hún. Til að byrja með hyggst Íris handgera hvert einasta leikfang en gangi salan vel má vera að það þurfi að útvista framleiðslunni.

Þú virðist hafa mikla sköpunarþörf?

„Ég hef alltaf verið skapandi en það er samt annars eðlis núna. Ég var nýútskrifuð úr sex ára söngnámi í ryþmískum söng þegar Kolbeinn veiktist og röddin bara hvarf. Eða réttara sagt, í hvert sinn sem ég reyndi að syngja kom kökkur í hálsinn og tónninn brotnaði. Ég held að sköpunarþörfin sé að brjótast út af svona miklum krafti þarna vegna þess að ég er ekki að syngja. Ég hef líka tímann og ég leyfi sjálfri mér bara að vera og gera það sem nærir andann. Það skiptir miklu máli, að hlúa að sér, og það hjálpar mér að fá að vinna í einhverju svona.“

 Varstu að fást við handverk sem barn?

„Ekkert sem var eftirtektarvert allavega en ég var alltaf að syngja. Það var mitt. Það var mikið af hæfileikaríku fólki í kringum mig og ég man alltaf eftir því þegar ég var krakki að besta vinkona mín og frænka var svo ótrúlega góð í að teikna. Mínar teikningar voru örugglega fínar en stóðust ekki samanburð við hennar. Þannig að ég hugsaði bara: Ókei, ég ætla bara að syngja. Það er þá bara mitt.

Svo nú hef ég fundið mig í handverkinu í staðinn. Kolbeinn sagði stundum við mig að ég væri alltaf að „gera fallegt“ þegar ég var að fást við eitthvað. Það var alveg sama hvað það var, halda matarboð eða eitthvað, hann var á hvolfi í eldhúsinu á meðan ég var að leggja á borð og hann sagði: „Vá, ert þú búin að gera fallegt!“

Það er kannski hallærislegt og ofnotað á Instagramdögum að maður sé fagurkeri. En ég veit það ekki, mér finnst gaman „að gera fallegt“ og vanda mig, eiginlega alveg sama hvað það er.“

„Þá er svo margt sem landið við Framnes býður upp á og svo margir möguleikar sem ég sé tengda svæðinu. Eitt skrýtnasta hlutverkið sem ég hef tekið að mér nýlega er ekki bara að verða ekkja heldur er ég líka orðin æðabóndi sem er greinilega eitthvað sem ég átti alltaf að verða. Ég á mér draum um það að í framtíðinni, verði ég svo heppin að geta skapað mér atvinnu á Framnesi í sátt við náttúruna og landið, að gera eitthvað úr æðardúninum. Þá sé ég fyrir mér að eintak af Að breyta fjalli myndi fylgja í kaupbæti með vörunum og þar með væri komin þessi tenging við staðinn, fjallið sem æðarkollurnar verpa undir og söguna okkar Önnu,”  segir Íris en bætir við að verkið geti átt sér fleiri en eina túlkun:

„Það opnaðist nýr vinkill í kjölfar þess að ég var í sjónvarpsþættinum Landanum um jólin. Rauði þráðurinn í því viðtali var sorgin sem var þó ekki það sem við höfðum lagt upp með. Aðalsagan átti að vera um leikfangið „Að breyta fjalli“ en snérist svolítið í höndunum á okkur því það er bara svo samofið sorginni. Samhliða þessu ferli, þar sem ég er bókstaflega að breyta þessu fjalli,” segir hún og bendir á leikfangið „er ég nefnilega líka að takast á við þessa stóru sorg sem er eins og fjall. Sorgin er oft svo stór að maður sér ekki fram úr henni. Hún er eins og fjall sem er allt í einu mætt og nærvera þess svo stórfengleg og þú kemst ekkert hjá því.

Þetta eru mín fyrstu kynni af sorg þannig séð. Allavega svona sorg. Mér hefur oft fundist eins og fólk líti á hana eins og eitthvað sem maður þarf að komast upp úr, komast framhjá, vinna úr og skilja við. Auðvitað á maður að vinna úr henni en ekki á þann hátt að þú sért að losa sig við hana. Hún er svo samofin manneskjunni eða því eða þeim sem þú syrgir. Reyndi ég að losa mig við hana fyndist mér að ég væri um leið að ýta henni í burtu frá mér og í mínu tilviki er það allavega algerlega ómögulegt og ég gæti ekki hugsað mér að lifa lífinu án þess að minnast hans. Við eigum líka dóttur sem verður að alast upp við það að hann sé partur af henni og fjölskyldunni okkar þó hann sé ekki með okkur.

Í kjölfarið af þessu viðtali hef ég fengið svo mörg skilaboð frá fólki sem hefur staðið í sömu sporum og langar í eintak. Ekki fyrir börnin sín eða til að gefa, heldur fyrir sjálft sig sem einskonar áminning um að sorgin megi taka pláss. Áþreifanleg áminning um að hún megi vera en geti og muni með tímanum breytast í eitthvað annað. Eitthvað fallegt.

Ég hafði ekki séð það fyrir. Ég leit alltaf á þetta sem leikfang eða stofustáss. Sá fyrir mér að brottflutt fólk, eldra fólk eða fólk með tengingar hingað gæti haft gaman af að hafa þetta uppi í hillu. Það var alveg óvænt að þetta gæti líka orðið tákn um sorg og að sorgin mætti búa með manni og taka á sig allskonar myndir. Það er svolítið magnað og fallegt.”

Texti: Jón Knútur Ásmundsson. 

Myndir: Úr safni.