Nauðsynleg upplýsingaöflun

„Okkar fyrsta verkefni er að greina vinnumarkaðinn og atvinnulífið sem er fjölbreyttara á Seyðisfirði en víða annars staðar“ – Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar.

„Okkar hlutverk er að reyna átta okkur á því hvers konar stuðningsúrræði þarf að þróa fyrir Seyðfirðinga,“ segir Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, en hún hefur leitt þessa vinnu fyrir hönd stofnunarinnar síðustu vikur. Austurbrú ákvað strax að veita þá hjálparhönd sem hægt var að veita. Ljóst sé að tjónið er gríðarlegt og fjölþætt fyrir samfélagið og atvinnulífið.

„Okkar fyrsta verkefni er að greina vinnumarkaðinn og atvinnulífið sem er fjölbreyttara á Seyðisfirði en víða annars staðar,“ segir Jóna Árný. „Við og fleiri, m.a. Byggðastofnun, höfum verið að safna saman grunnupplýsingum og í framhaldinu höfum við átt samtöl við rekstraraðila, sem eru margir á Seyðisfirði, til að ná utan um áhrif hamfaranna á fyrirtækin á staðnum. Skriðan fellur á viðkvæmt svæði, þar sem fjöldi fyrirtækja hefur sett sig niður, og við erum að vinna með þessum aðilum. Að auki aðstoðum við sveitarfélagið við að átta sig á mismunandi stöðu rekstraraðila á svæðinu,“ segir hún.

Jóna segir þessa vinnu mikilvæga því hún varpi skýru ljósi afleiðingar skriðanna. „Skriðan fellur á eitt megin atvinnusvæði staðarins og mörg fyrirtæki standa frammi fyrir allt öðrum veruleika en þau gerðu um miðjan desember.“