Þessa dagana erum við að leggja lokahönd á verkefnið Fræðslustjóri að láni hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands. Lokaafurð vinnunnar verður fræðsluáætlun til tveggja ára og stefnt er að því að hún taki gildi í byrjun næsta árs.
Verkefnið Fræðslustjóri að láni snýst m.a. um að virkja allt starfsfólk í að þarfagreina og meta hvernig námskeið og/eða hópefli vinnustaðurinn þarfnast. Upplýsingarnar eru nýttar í gerð fræðsluáætlunar sem svo endurspeglar vilja og þarfir starfsfólks.
Hjá HSA hefur fjölbreyttur hópur starfsmanna tekið þátt í þarfagreiningunni. Þeir vinna t.d. í þjónustudeildum, við umönnun, í móttöku og í eldhúsi en raunar má segja að allt starfsfólk HSA taki þátt í þarfagreiningunni ef undanskyldir eru starfsmenn sem hafa sérmenntun úr háskóla að baki.
Aðferðarfræðin sem Austurbrú notar er annars vegar starfagreining þar sem starfsfólk fær blað með ýmsum hæfniþáttum og það metur síðan sjálft getu sína. Hin aðferðin nefnist AirOpera þar sem starfsfólk skrifar niður hugmyndir að fræðslu og hópefli og ber svo saman bækur við vinnufélaga.
Stýrihópur verkefnisins er skipaður starfsfólki á flestum starfssviðum og starfsstöðvum HSA. Hann hefur verið Austurbrú innan handar við undirbúninginn og verður svo tengiliður okkar og starfsfólks HSA þegar áætluninni verður hrint í framkvæmd í byrjun næsta árs.
Þessi greiningarvinna er HSA að kostnaðarlausu en sótt er um fjármagn í Ríkismennt sem er þróunar-og símenntunarsjóður starfsmanna ríkisins á landsbyggðinni innan aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands (sjá nánar: rikismennt.is).
Það er fræðsluteymi Austurbrúar sem sér um framkvæmdina á verkefninu í samvinnu við tengiliði innan HSA. Við hvetjum fyrirtæki og stofnanir á Austurlandi að hafa samband við okkur ef áhugi er fyrir hendi. Við vekjum athygli á að ef vinnustaðurinn greiðir starfsmenntaiðgjöld í IÐUNA fræðslusetur, Landsmennt, Sjómennt, Starfsafl, RAFMENNT, Starfsmenntasjóð verslunar- og skrifstofufólks, Starfsmenntasjóð verslunarinnar og Menntunarsjóð Sambands stjórnendafélaga getur hann sótt um sér að kostnaðarlausu að því gefnu að aðild starfsmanna að þessum sjóðum á tilteknum vinnustað sé að minnsta kosti 75 prósent.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn