Tilgangur viðveru verkefnastjóra á slíkri ferðakaupstefnu er margþættur, m.a. upplýsingagjöf til áhugasamra ferðaskrifstofa, ítarlegir fundir um Austurland við ferðaskrifstofur (aðallega þýskar) og samtal við flugfélög og aðra aðila tengda flugrekstri vegna áframhaldandi vinnu við að koma á beinu flugi á milli Egilsstaðaflugvallar og Evrópu. Ásamt því að vera stærsta ferðasýning í heimi er ITB Berlín mikilvægur vettvangur í umræðu um stefnu og strauma í ferðaþjónustu og fjöldi fyrirlestra og pallborða í boði fyrir gesti á meðan sýningunni stendur. Þá sótti verkefnastjóri viðburð á vegum Höfuðborgarstofu og íslenska sendiráðsins í Berlín þar sem þýskum fjölmiðlum var boðið að koma og kynna sér Ísland. Sömuleiðis átti verkefnastjóri samtöl við íslenskar ferðaskrifstofur og stoðkerfi.