„Náttúrufegurð Austurlands er óviðjafnanleg”

Úr fluginu austur á land

„Ég kem úr flugiðnaðinum, sem er mjög regluvæddur iðnaður, og hann hefur mótað mig í gegnum í gegnum tíðina. En það er gott að vinna með öllu þessu frábæra starfsfólki hjá Austurbrú og ég hef lært margt á þeim tíma sem ég hef verið hér við störf þótt ég hafi raunar þekkt til Austurbrúar, komið hér inn sem ráðgjafi um flug- og ferðamál í nokkur ár,” segir Björn.

Það er óhætt að segja að starfsferill Björns hafi verið fjölbreyttur. Hann er fæddur í Reykjavík árið 1961 en uppalinn í Keflavík og náði sér í menntun frá Sjómannaskólanum í Reykjavík og síðar í skipa- og flutningamiðlun frá London og skipa- og hafnarrekstrarfræði við Walesháskólann í Cardiff. Hann vann hjá Skipadeild Sambandsins (síðar Samskip) á árunum 1977-1996, var framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá Sofrana Unilines í Ástralíu og Nýja Sjálandi 1996-1998, flugvallarstjóri Keflavíkurflugvallar 1999-2008, forstjóri Saltkaupa 2008-2010 og framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í WOWair 2011-2015. „Svo hef rekið eigið ráðgjafafyrirtæki frá 2010 og fengist við hin ýmsu verkefni tengd flugrekstri og flutningum,” bætir Björn við en hann kom til Austurbrúar sl. september og hefur sinnt fjölbreyttum verkefnum hér innanhúss auk þess að koma að ýmsu sem varðar almenna stjórnun hjá stofnuninni enda Björn með mikla stjórnunarþekkingu eins og sjá má.

Krefjandi verkefni

Eitt helsta verkefni Björns síðustu mánuði hefur snúist um svæðisskipulag Austurlands þar sem hann annast samræmingu og verkefnastjórn. „Það er unnið eftir tímatöflu sem miðar að því að afla upplýsinga fyrir svæðisskipulagsnefndina og kynna framgang verkefnisins á reglulegum fundum með Sambandi Sveitarfélaga á Austurlandi sem er í raun verkkaupi ásamt sveitarfélögunum á Austurlandi. Stefnt er að því að skila fyrsta áfanga, sem er vinnsla á frumdrögum, fyrir aðalfund SSA í maí 2021. Annar áfangi, sem er vinnslutillaga, verður svo lögð fyrir í desember 2021, þriðji áfangi, sem er kynningartillaga, verður lögð fram í mars 2022. Fjórði áfanginn snýst um gerð auglýsingatillögu og stefnt er á að hún verði klár í september 2022. Fimmti og síðasti áfanginn er lokaafgreiðsla skipulagsins og er stefnt að því að sá áfangi klárist í mars 2023,” segir hann.

Annað umfangsmikið verkefni sem Björn sinnir hjá Austurbrú snýr að Stuðlagili, áfangastað sem varð óvænt einn sá vinsælasti á landinu í fyrra. „Þetta er verkefnastjórn á áfangastað í mótun, ” segir hann en verkefnið fékk nýlega styrk frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu eins og greint var frá hér á síðunni fyrir stuttu. „Tilgangur verkefnisins er að búa til ferli fyrir uppbyggingu á áfangastöðum með sjálfbærni að leiðarljósi. Horft er til þess að verkefnið rími við framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu en það hefur borið á því að það er vöntun á samhæfingaraðila þegar kemur að uppbyggingu áfangastaða á Íslandi,” segir hann og bætir við: „Stuðlagil er lýsandi dæmi um sjálfssprottinn áfangastað sem nýtur mikilla vinsælda. Þar eiga margir hagsmunaaðilar hlut að máli og gríðarlega mikilvægt að heildarsamræmingu áfangastaðarins sé sinnt.”

Björn vinnur einnig að verkefni sem nefnist Efling Egilsstaðarflugvallar og þar kemur flugþekkingin og tengslanetið að góðum notum.

Fleiri fréttir

Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!

Skoða fréttasafn