„BRAS hefur á aðeins þremur árum skotið rótum í menningarlandslagi Austurlands“

– Karna Sigurðardóttir skrifar um BRAS – Menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi sem haldin er í þriðja sinn í haust 2020 um allt Austurland.

Nú lýkur senn yfirgripsmikilli dagskrá BRAS – Menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi sem hefur spannað Austurland vítt og breitt—landfræðilega og samfélagslega—og staðið yfir síðan í september. BRAS gefur börnum og ungmennum um allt Austurland tækifæri til að læra um og tileinka sér hin ýmsu listform, taka þátt í listsköpun og upplifa listviðburði. Þannig spilar hátíðin viðamikið hlutverk í listfræðslu á Austurlandi. Starfsemi sem þessi hefur þó mun víðtækari áhrif en að gleðja börn og glæða haustið þeirra lífi. Í leiðarljósum BRAS er tiltekið að með aðgengi að fjölbreyttum fyrirmyndum og þjálfun í tjáningu fyrir börn og ungmenni stuðli hátíðin að auknu umburðarlyndi og víðsýni í samfélaginu.

Dagskrá BRAS hefur frá upphafi verið unnin út frá þeirri sýn að upplifun barna á að skapa í samvinnu og tengsl við jafnaldra í rýnivinnu auki lýðræðislega næmni þeirra. Að tjáning í hópi gefi aukna tilfinningu fyrir því samfélagi sem einstaklingarnir mynda og trú á því að hver einstaklingur eigi rödd sem hlustað sé á. Í smærri samfélögum þar sem mannauður er einsleitari er einkar mikilvægt að börn og ungmenni láti að sér kveða, sýni frumkvæði og taki virkan þátt í mótun verkefna og kerfa. Til þess þurfa börnin að búa yfir sjálfsöryggi, vera læs á nærsamfélagið og fær í rýni- og samvinnu.

Einkunnarorð hátíðarinnar Þora! Vera! Gera! hvetja börn á Austurlandi til að þora að hvíla í sjálfum sér og framkvæma á eigin forsendum.

Lesningin hér að neðan er sjálfstætt framhald af grein sem var birt á Kjarnanum þann 23. september síðastliðinn.

Líkt og í fyrri greininni eru tvær rannsóknir hafðar til grundvallar umfjölluninni. Rannsókn á list- og menningarfræðslu á Íslandi frá 2011 sem stýrt var af Anne Bamford, prófessor og mennta- og menningarfulltrúa Lundúnaborgar. Einnig umfangsmikil rannsókn stýrt af sömu konu um listkennslu í yfir 40 löndum en niðurstöðurnar úr henni voru gefnar út árið 2006 í bókinni The WOW factor; Global reasearch compendium on the impact of the arts in education.

Sú yfirgripsmikla rannsókn sem kynnt er í The Wow Factor gefur skýrar vísbendingar um að börn sem fá gæða-listkennslu eru óhræddari að takast á við verkefni, hvíla öruggari í sjálfum sér, standa sig betur í öllu námi og eru ólíklegri til að hrökklast úr skóla.

Það þarf ef til vill ekki að koma á óvart að starfsemi sem hvetur börn til að þora að hvíla í sjálfum sér, skapa og framkvæma á eigin forsendum styrki sjálfsmynd þeirra, en í leiðarljósum BRAS segir: „Menning er órjúfanlegur hluti af sjálfsmynd barna og ungmenna og sjálfstjáningu þeirra. Með auknu framboði að skapandi starfi stuðlar BRAS að mótun heilbrigðrar sjálfsmyndar barna og ungmenna.“

Þetta rímar vel við útkomur úr rannsókn Anne Bamford en þar eru skýrar vísbendingar—frá mörgum löndum—sem gefa til kynna að listkennsla styrki sjálfsöryggi og hafi jákvæð áhrif á almenna líðan og viðhorf barna. Eitt af einkennum gæða-listkennslu samkvæmt rannsóknunum sem hér eru hafðar til grundvallar er samvinna.

Þemaverkefni BRAS 2019 var tjáning án tungumáls, þar sem aðferðir myndlistar, tónlistar, dans og sirkus mörkuðu leið til tjáningar, samveru og fjölbreyttrar skapandi vinnu. Meginmarkmið verkefnisins var að búa til vettvang þar sem öll börn á Austurlandi geta unnið saman á jafningjagrundvelli óháð móðurmáli eða tungumálakunnáttu. Slíkt verkefni felur ekki einungis í sér listkennslu, heldur gefur börnum og ungmennum tækifæri til að opna augu og hjörtu sín fyrir mikilvægi samveru, samkenndar og samstöðu í samfélaginu. Slík samvinna gefur börnum tækifæri til að kynnast á nýjan hátt og skilja hvert annað út frá nýjum forsendum, sem eykur virðingu og umburðarlyndi í samfélagi barna og ungmenna.

Í The Wow Factor kemur fram að listkennsla hefur lykilhlutverki að gegna fyrir menningarlega- og samfélagslega þróun og getur haft jákvæð samfélagsleg og efnahagsleg áhrif auk þess að hafa jákvæð áhrif á þróun menntunar. Þá getur listfræðsla haft í för með sér að fagfólk í listum stígur inn í listkennslu og tekur virkan þátt í mótun fræðsluverkefna og annarra samfélagsmiðaðra verkefna. Á aðeins þremur starfsárum BRAS er farið að gæta slíkra áhrifa á Austurlandi en mikilvægt er að fylgjast grant með þróuninni á komandi árum. BRAS nýtir fjölbreytta þjónustu listafólks á og frá Austurlandi og mannauðinn á svæðinu eins og hægt er. Listafólk af svæðinu heldur smiðjur, veitir sýningarleiðsögn, sinnir aðstoðarkennslu og tekur þátt í skipulagningu. Þá er einnig mikilvægt fyrir smærri samfélög að fá inn nýjar hugmyndir frá listafólki annarsstaðar að, og því hefur starfshópurinn sem stendur að BRAS verið breiður og ört stækkandi—hópur fólks með brennandi áhuga á framgangi hátíðarinnar.

BRAS hefur nú verið haldið þrisvar og undirbúningur fyrir næsta ár er hafinn. BRAS hefur á aðeins þremur árum skotið rótum í menningarlandslagi Austurlands, því þó hátíðin geti glatt og nært alla þátttakendur, eru vísbendingar um að hún sé vissum hópi nauðsynleg. Fjöldi umsagna barna, foreldra og leiðbeinenda á BRAS sýna fram á hvað aðgengi að listum var ábótavant, og hvað það bætir lífsgæði barna sem þess njóta. Vert er að gera frekari rannsóknir á þessum þætti.

Það er brýnt að fylgjast betur með aðgengi barna að listum og listfræðslu og leggja upp með að aðgangi sé jafnt, eins og Anne Bamford bendir á. Það þýðir þó ekki að aðgengi þurfi allsstaðar að vera eins, því Seyðisfjörður er ekki á Hverfisgötunni og Listasafn Íslands er ekki uppi í Fljótsdal—og engin ástæða til að svo sé. Áskorunin felst í að þróa samstarfverkefni og vinnuaðferðir sem tryggja aðgengi í samhengi við menningarlegar og landfræðilegar aðstæður á hverjum stað.

Megi menningarstofnunum þjóðarinnar og mennta- og menningarmálaráðuneytinu bera gæfa til að framfylgja tillögum sem lagðar eru fram í umræddri skýrslu um listfræðslu á Íslandi og aðlaga samstarfsverkefni að aðstæðum hvers svæðis, svo öll börn á Íslandi njóti jafns aðgengis að listum og menningu. BRAS sýnir fram á að með samtöðu að vopni, heimavið og á landsvísu, getum við stuðlað að vönduðu menningaruppeldi allsstaðar á landinu um ókomna tíð.