Að venju verður fjöldi viðburða á hátíðinni og ættu börn og forráðamenn að eiga auðvelt með að finna eitthvað við sitt hæfi. Skaftfell myndlistarmiðstöð Austurlands býður grunnskólabörnum í heimsókn í listfræðsluverkefnið „Húsapúsl“, Tónlistarmiðstöð Austurlands mun kynna tónlistariðkun og tónlistarsköpun með spennandi hætti í þeim tilgangi að vekja athygli barna og ungmenna á tónlistarsköpun. Þetta verkefni er unnið með Upptaktinum, verkefni Listaháskóla Íslands sem þróað hefur verið í samstarfi við Hörpu og fleiri aðila.  Þá mun Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs bjóða unglingum grunnskólanna á sérstakar skólasýningar á leikverkinu „Sunnefa“.

Margt fleira verður í boði á BRAS og má finna allar upplýsingar um viðburði á https://www.bras.is/ auk þess sem allir viðburðir eru kynntir á Facebook síðu BRAS.  Hvetjum við alla til að „líka við“ þá síðu.  Okkur langar þó sérstaklega að vekja athygli á viðburðum sem verða um helgina og í næstu viku en þá mun Kómedíuleikhúsið bjóða í leikhús á Djúpavogi og Borgarfirði eystri, Rákir verða með dans- og teiknismiðjur á Reyðarfirði og Seyðisfirði og Hringleikur býður upp á „Verk í vinnslu“-sýningu á Fáskrúðsfirði og Vopnafirði.  Íbúar eru hvattir til að gera sér dagamun og kynna sér einnig dagskrá í nágrannasveitarfélögum.

Hátíðin aðlöguð vegna heimsfaraldurs

Tilgangur menningarhátíðarinnar BRAS er að bjóða börnum og ungmennum upp á listviðburði í heimabyggð.  Mikilvægt er að auka aðgengi þeirra að list- og menningarviðburðum enda hafa rannsóknir sýnt að það eflir sjálfstraust barna og ungmenna að hafa gott aðgengi og góða kennslu í listum og menningu.

Vegna heimsfaraldursins hafa allir, sem aðkomu hafa að skipulagningu hátíðarinnar, lagt sitt lóð á vogarskálarnar til að halda BRAS-viðburðina með eins ábyrgum hætti og unnt er.  Viðburðum hefur verið breytt, þeir færðir til og aðlagaðir að þeim sóttvarnarreglum sem nú gilda.  Þó skal minnt á að við erum öll okkar eigin sóttvarnir og forráðamenn eru hvattir til að fylgja fyrirmælum yfirvalda í hvívetna.

Eins og áður er BRAS-hátíðin samstarf fjölmargra aðila þar sem menningarhúsin þrjú á Austurlandi gegna lykilhlutverki, ásamt Austurbrú, sveitarfélögunum, skólum og öðrum stofnunum.  Yfirskriftin að þessu sinni er rétturinn til áhrifa og byggir hún á 12. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þessi grein var valin af ungmennaráði BRAS og stýrihópi BRAS en einkunnarorðin eru sem fyrr: Þora! Vera! Gera!


Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir

470 3871 // [email protected]