Byggðahátíðin okkar allra, Dagar myrkurs, hefst formlega á morgun 31. október. Einhver hafa þó nú þegar boðið upp á skemmtilega viðburði og ýmislegt áhugavert verður á dagskrá í dag.
Hátíðin í ár ber þess merki að sífellt fleiri njóta þess að halda upp á Hrekkjavökuna með því að skella sér í búning og bjóða börnum að þiggja „grikk eða gott.“ Góður siður hefur skapast þessu tengdu sem felst í því að þau sem hafa áhuga á að bjóða börnin velkomin setja ljósker eða kerti við útidyrnar og þannig geta börnin auðveldlega ratað þangað sem góðgætið er að finna.
Sumir byggðakjarnar gefa út heildstæða dagskrá og geta íbúar og gestir þá haft góða yfirsýn yfir allt sem í boði er. Íbúasíður á Facebook eru einnig mikið notaðar og eru íbúar hvattir til að fylgjast vel með í sínu nærumhverfi en þó ekki síður í nærliggjandi byggðakjörnum því ýmislegt skemmtilegt má finna í næsta nágrenni. Stýrihópur Daga myrkurs hvetur viðburðahaldara til að setja sig í samband við verkefnastjóra þannig að viðburðirnir séu líka auglýstir á Facebooksíðu Daga myrkurs.
Að venju verður haldin ljósmyndasamkeppni þar sem fallegasta myndin fær 50.000 krónur í verðlaun. Í fyrra var það Fáskrúðsfirðingurinn Albert Sigurðsson sem sigraði og verður gaman að sjá hvaða mynd verður hlutskörpust í ár. Allar myndir skal senda á [email protected] í síðasta lagi 5. nóvember.
Við minnum á búningadaginn sem haldinn verður á morgun, þriðjudag, auk þess sem við ætlum í ár að hvetja íbúa til að senda okkur myndir af skreytingum í húsunum sínum, hvoru tveggja inni og úti og merkja þær með #dagarmyrkurs og #austurland. Þau sem eiga best skreytta húsið fá í heimsókn til sín ljósmyndara sem tekur myndir af dýrðinni og sigurvegararnir fá birta frétt um sig og húsið sitt.
Sem áður hvetjum við fyrirtæki, verslanir og stofnanir að taka þátt. Vera með tilboð á matseðlum, vörum og þjónustu og taka þátt í búningadeginum. Við hvetjum okkur öll til að nýta góða veðrið og góðu færðina framundan til að fagna myrkrinu saman, bjóða hvert öðru upp á alls konar viðburði og njóta þessa að lifa og versla í heimabyggð.
Gleðilega Daga myrkurs!
Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn