Dagar myrkurs

Hátíðin í ár ber þess merki að sífellt fleiri njóta þess að halda upp á Hrekkjavökuna með því að skella sér í búning og bjóða börnum að þiggja „grikk eða gott.“ Góður siður hefur skapast þessu tengdu sem felst í því að þau sem hafa áhuga á að bjóða börnin velkomin setja ljósker eða kerti við útidyrnar og þannig geta börnin auðveldlega ratað þangað sem góðgætið er að finna.

Sumir byggðakjarnar gefa út heildstæða dagskrá og geta íbúar og gestir þá haft góða yfirsýn yfir allt sem í boði er. Íbúasíður á Facebook eru einnig mikið notaðar og eru íbúar hvattir til að fylgjast vel með í sínu nærumhverfi en þó ekki síður í nærliggjandi byggðakjörnum því ýmislegt skemmtilegt má finna í næsta nágrenni. Stýrihópur Daga myrkurs hvetur viðburðahaldara til að setja sig í samband við verkefnastjóra þannig að viðburðirnir séu líka auglýstir á Facebooksíðu Daga myrkurs.