Á málþinginu verður fjallað um málefnið á breiðum grunni og tilgangurinn að veita örlitla innsýn inn í rannsóknir sem gerðar hafa verið á stöðu fólks af erlendum uppruna auk þess sem fólk með reynslu úr málaflokknum lýsir þeim áskorunum sem samfélagið stendur andspænis þegar kemur að aðlögun útlendinga í íslenskt samfélag. Þá munu tvær konur af erlendum uppruna lýsa upplifun sinni af íslensku samfélagi.

Þessi mál hafa á síðustu árum orðið fyrirferðarmikil í íslenskri samfélagsumræðu enda hefur fólki af erlendum uppruna fjölgað mjög á Íslandi á síðustu árum og er núna samanlagt, þ.e. fyrsta og önnur kynslóð, tæplega sextán prósent af mannfjöldanum og hefur það hlutfall aldrei verið hærra. Svipaða sögu er að segja af Austurlandi. Þar hefur innflytjendum líka fjölgað og hlutfall þeirra í dag er um ellefu prósent.

Austurbrú hefur gert tvær rannsóknir á högum fólks af erlendum uppruna (Tinna Halldórsdóttir og Elfa Hlín Pétursdóttir, 2018Tinna Halldórsdóttir, 2019 –  rannsóknarskýrlur má finna á vef Austurbrúar) og þar kemur m.a. fram að innflytjendur á Austurlandi eru almennt sáttir við það umhverfi sem mætir þeim og telja að vel sé tekið á móti þeim. Það hafa þó einnig komið fram vísbendingar um að þessi hópur telji sig ekki búa við sömu tækifæri og aðrir Austfirðingar og gerði Austurbrú sérstaka rannsókn af því tilefni.

Framsögumenn koma víða að. Tinna Halldórsdóttir, félagsfræðingur, mun segja frá rannsóknum Austurbrúar á högum og stöðu fólks af erlendum uppruna, Linda Dröfn Gunnarsdóttir hjá Fjölmenningarsetri mun fjalla um hugtakið fjölmenningarsamfélag, Markus Meckl, prófessor við Háskólann á Akureyri, mun segja frá rannsóknum sínum en hann hefur m.a. skoðað upplifun fólks af erlendu bergi brotnu af skólakerfinu og þá hefur hann skoðað hamingju þessa hóps sem er nokkuð almenn á Akureyri miðað við rannsóknir. Loks mun Zane Brikovska hjá Alþjóðastofu Akureyrarbæjar ræða um fjölmenningarstefnu og fjölmenningarsamfélagi á Akureyri. Á málþinginu koma einnig fram Gosia Libera og Wala Abu Libdeh sem munu lýsa upplifun sinni sem íbúar á Austurlandi.

Ávörp flytja Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, og Davíð Þór Jónsson, prestur. Málþingsstjóri verður Gillian Haworth og pallborðsumræðum, sem hefjast að framsögum loknum, stýrir Jón Knútur Ásmundsson.

Málþingið fer fram í Hótel Egilsbúð í Neskaupstað þann 23. júní (þriðjudagur), kl. 14:00-16:30.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.


Jón Knútur Ásmundsson

895 9982 // [email protected]