Þeim fjölgar sem stunda fjarvinnu á Austurlandi. Eftir heimsfaraldurinn varð ljóst að ýmsum störfum mátti sinna nánast hvar og hvenær sem er. Óstaðbundin störf eru reglulega auglýst og sífellt fleiri sjá tækifæri í því að breyta um umhverfi og prófa eitthvað nýtt. Við ræddum við Moaz Salah sem vinnur hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Helix (áður heilbrigðislausnir Origo). Hann fjarvinnur frá Fáskrúðsfirði og kýs það fremur en að vinna í höfuðstöðvunum í Reykjavík.
Moaz kann að meta friðsældina, náttúrufegurðina, hreina loftið og öll hin lífsgæðin sem innfæddir Austfirðingar taka mögulega sem gefnum en það gerir Moaz ekki. Hann er fæddur og uppalinn í Kaíró, Egyptalandi, þar sem tuttugu og fimm milljónir manna búa.
„Ég er forritari,“ segir Moaz, „og það er raunar orðið mjög algengt að fólk í vinnu svipaðri minni sé í staðsetningarlausum störfum. Í svona verkefnum, eins og ég sinni, þarftu ekki að mæta á vinnustað á einhverjum ákveðnum tíma. Það eru verkefnin sem ráða ferðinni, að þau séu leyst vel og faglega, en hvar þú gerir það kemur málinu ekki endilega við. Ég er hér á Fáskrúðsfirði og vinn með fólki sem er úti um allt, bæði hér á Íslandi og erlendis. Ef öll öryggismál fyrirtækisins eru á hreinu þá er ekkert því til fyrirstöðu að vinna verkefnin hvar sem er.“
Moaz flutti austur á Fáskrúðsfjörð frá Kaíró, höfuðborg Egyptalands, fyrir tíu árum síðan og er því fæddur og uppalinn í stórborg. Hann er því vanur traffík, mengun og ysi og þysi borgarlífsins og féll kylliflatur fyrir friðsældinni og náttúrufegurinni austur á fjörðum. „Ég vil vera í þessu umhverfi,“ segir hann og bætir við, „mér finnst gott að vera snöggur í vinnuna og það tekur mig fimm mínútur að komast í ósnortna náttúru, svo að segja, þar sem ég get notið þess að vera úti. Þetta eru ómetanleg lífsgæði fyrir mig og fjölskylduna mína.“
Það var því mjög mikilvægt fyrir hann að búa áfram á Fáskrúðsfirði þegar honum bauðst vinna hjá Origo fyrir nokkrum árum. „Ég var spurður að því í atvinnuviðtalinu hvort ég væri til í að koma suður og ég svaraði því til að ef ég gæti unnið þessa vinnu á Fáskrúðsfirði þá kysi ég fremur að gera það. Og það var samþykkt.“
Í dag er Moaz með skrifstofuaðstöðu á Skólavegi 59 á Fáskrúðsfirði í skrifstofubyggingu sem er í eigu Loðnuvinnslunnar.
Hann og deilir sinni hæð með öðrum einyrkjum í staðsetningarlausum störfum. „Mér finnst gott að vinna einn,“ segir hann. „Ég þarf gott næði í vinnunni svo ég geti einbeitt mér og þá hentar vel að vera einn á skrifstofu í litlum friðsælum bæ. Svo ekki sé minnst á það hversu ódýrt það er að búa úti á landi!“
Austurbrú heldur utan um vef þar sem kortlagt er húsnæði í landshlutanum er hentar vel fyrir fólk í óstaðbundnum störfum. Þar er hægt að leita að hentugu húsnæði eftir byggðakjörnum og eftir tegund húsnæðis, hvort það henti fyrir skrifstofu, viðburði, verkstæði, matvælaframleiðslu o.s.frv. Upplýsingarnar eru á ensku og íslensku.
NánarFrá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn