Á morgun, fimmtudag, verða tónleikarnir Rythmefor / Hrynferð í Randulfssjóhúsi. Tónleikarnir eru afrakstur samstarfs Eskju á Eskifirði og BioMar í Noregi þar sem ungir tónlistarmenn frá Austurlandi og Vesterålen í Noregi fá tækifæri til að vinna saman.

Á tónleikunum kemur fram norski fiðluleikarinn Hugo Hilde ásamt hljómsveit og sérstakur gestur verður Garðar Eðvaldsson, saxófónleikari frá Eskifirði. Tónleikarnir eru hluti af dagskrá göngu- og gleðivikunnar Á fætur í Fjarðabyggð.

Samstarf Eskju og BioMar

Hrynferð er samstarfsverkefni Eskju á Eskifirði og BioMar í Noregi þar sem ungir tónlistarmenn frá Austurlandi og Vesterålen í Noregi fá tækifæri til að vinna saman. Hljómsveitina skipa auk Hugo og Garðars; Jón Hilmar Kárason á gítar, Þorlákur Ágústsson á bassa og Orri Smárason á trommur.

Í tvö ár hefur verið tónlistarsamstarf milli fyrirtækjanna Eskju og BioMar. Lengur hafa fyrirtækin átt í viðskiptum þar sem Eskja selur mikið af fiskimjöli til BioMar. Til að efla viðskiptasamböndin, styðja við ungt tónlistarfólk og skapa nánari tengsl milli landanna hafa verið haldnir nokkrir tónleikar á síðustu tveim árum í báðum löndunum.  Bæði inn í fyrirtækjunum sjálfum en einnig á nokkrum stöðum um Vesterålen og Austurland.

Tíu ára menningarsamstarf

Menningarsamstarf hefur verið á milli Vesterålen í Noregi og Austurlands í tíu ár fyrir tilstuðlan menningarráða svæðanna beggja.  Yfir hundrað menningarverkefni og viðburðir hafa orðið til á þessum tíma. Samstarf Eskju og BioMar er enn einn áfanginn í þessu blómlega samstarfi. 

Sem fyrr segir verða tónleikarnir í Randulfssjóhúsi á Eskifirði og hefjast klukkan 20.

Nánari upplýsingar veita: Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri í síma 899 4348 og Signý Ormarsdóttir, fulltrúi menningar hjá Austurbrú í síma 860 2983.