„Námstækifæri sem auðga samfélag okkar, stofnanir og mannlíf og eru nauðsynlegur hluti af þeim grunni sem við viljum leggja til vaxtar fjölbreytts austfirsks samfélags,“ segir Elfa Hlín Pétursdóttir í þessari grein um eflingu listgreinakennslu í fjórðungnum.
Þverfaglegt teymi hjá Austurbrú hefur unnið að sóknaráætlunarverkefninu Fjölgun námstækifæra í skapandi greinum á Austurlandi sem miðar að því gera Austurland að raunverulegum valkosti fyrir nám í skapandi greinum. Unnin var greining á framboði náms í framhaldsskólunum þremur, Menntaskólanum á Egilstöðum, Verkmenntaskóla Austurlands og Hússtjórnarskólans Hallormsstað auk LungA Skólannum og fræðslusviði Austurbrúar. Þá var haft samráð við skólana um hvar skóinn kreppi, bæði er varðar námsframboð og aðstöðu ásamt því að greina eftirspurn eftir því námi sem í boði er.
Ljóst er að framtíð list- og verkgreinakennslu á framhaldsskólastigi byggir á að ákveðinn fjöldi nemenda velji þessar leiðir/brautir því annars verður aldrei grundvöllur til að byggja námið frekar upp innan skólanna.
Eitt af því sem kom fram var að nauðsynlegt væri að efna til samtals milli framhaldsskólastigsins og grunnskólastigsins um eflingu listgreinakennslu á báðum skólastigum, en ekki síst um hvernig listnám getur orðið raunverulegur valkostur nemenda (foreldra) sem ákjósanlegur starfsvettvangur í framtíðinni. Í þeim tilgangi er fyrirhuguð vinnustofa í LungA skólanum Seyðisfirði 18.nóvember n.k. Þar verður tengslunum komið formlega á, skoðaðir samstarfsfletir og línurnar lagðar fyrir áframhaldandi samvinnu.
Í samtölum við skólana á framhaldsskólastigi töluðu þeir allir um nauðsyn þess að koma því námi á framfæri sem þeir höfðu upp á að bjóða og fjölga nemendum. Þó var eðlilega viss áherslumunur á milli skóla auk þess sem ekki er tímabært að markaðssetja fjórðunginn heildstætt sem valkost fyrir nám í skapandi greinum. Frekar er rétt á þessu stigi málsins að leggja áherslu á hverja menntastofnun fyrir sig, bæði þegar kemur að markaðssetningu en einnig styrkingu á námsframboði og innviðum. Umfjöllun í austfirskum fjölmiðlum um skapandi greinar, listamenn og nám í list- og verkgreinum er þáttur í því að koma af stað umræðu um þennan málaflokk hér í fjórðungnum. Einnig er hugmynd um að á vorönn 2015 verði haldinn Dagur skapandi greina, sem byggist á sömu hugmynd og Tæknidagur fjölskyldunnar, þar sem samfélaginu, foreldrum og verðandi nemendum eru kynntir þeir miklu möguleikar sem felast í námi sem leggur áherslu á skapandi ferli og verkmenntun.
Þá voru greindar sértækar aðgerðir sem ráðst þyrfti í hjá hverri skólastofnun sem hluta af því ferli að gera Austurland að þeim áhugaverða valkosti til náms í skapandi greinum sem stefnt er að. Þær aðgerðir eru breytilegar og miðast við þarfir hverrar skólastofnunar fyrir sig, en eru jafnframt þáttur í því að styrkja það nám sem í boði er og möguleika þess til vaxtar í framtíðinni.
Með þessu verkefni er vonast til að mikilvæg skref í átt til styrkingar og fjölgunar námstækifæra í skapandi greinum á Austurlandi verði tekin. Námstækifæri sem auðga samfélag okkar, stofnanir og mannlíf og eru nauðsynlegur hluti af þeim grunni sem við viljum leggja til vaxtar fjölbreytts austfirsks samfélags.
Eftir Elfu Hlín Pétursdóttur, verkefnastjóra hjá Austurbrú.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn