Nú er hafinn undirbúningur fjórða matarmótsins á vegum Matarauðs Austurlands en það fer fram 9. nóvember í Valaskjálf á Egilsstöðum. Fyrsta mótið var haldið haustið 2021 og hefur síðan þá, vaxið og mótast og tekið ýmsum breytingum. Í fyrra voru sýnendur um 30 og talið er að gestir hafi verið hátt í 500. Þá var bryddað upp á þeirri nýjung að framleiðendur sem framleiða aðra vöru en matvöru úr austfirsku hráefni tóku einnig þátt og standa vonir til að þeim muni fjölga á þessu ári.
Mikill áhugi er á staðbundinni framleiðslu í landshlutanum og hefur framleiðendum fjölgað jafnt og þétt. Sífellt fleiri sjá hag sinn í því að mæta með vörurnar sínar á Matarmót Austurlands en þar gefst tækifæri til að ræða við mögulega kaupendur, hvort heldur þá sem starfa á veitingastöðum, í verslunum, í mötuneytum eða bara hinn venjulega kaupanda sem hefur gaman af að nýta vörurnar í eigin matreiðslu og/eða gefa gestum og gangandi.
Sem fyrr verður matarmótið unnið og skipulagt í samstarf við Auð Austurlands (áður Austfirskar krásir), hagaðila og ýmsa fleiri. Gert er ráð fyrir því að við fáum aftur að njóta skapandi matreiðslu kokkanema úr Hótel- og veitingaskólanum í Kópavogi, unnið er að því að fá erlenda kokka til að taka þátt og margt fleira spennandi er í bígerð. Mótið hefur frá upphafi verið styrkt af Sóknaráætlun Austurlands, auk þess sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur styrkt verkefnið veglega síðustu þrjú ár.
Við hvetjum ykkur öll til að taka daginn frá, hvort sem þið eruð matvælaframleiðendur, seljendur og framleiðendur matvæla, starfsmenn mötuneyta, matgæðingar eða bara eitthvað allt annað. Dagskráin er í vinnslu og verður auglýst fljótlega. Um leið verður opnað á skráningarhlekk fyrir sýnendur.
Hlökkum til að vera með ykkur 9. nóvember!
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn