Austurbrú leggur áherslu á að starfsfólk eigi kost á fræðslu og þjálfun sem eykur hæfni og ánægju þess í starfi og eykur færni þess í að takast á við ný og síbreytileg verkefni. Það er sameiginleg ábyrgð starfsfólks og stjórnenda að viðhalda og bæta fagþekkingu og aðra sérþekkingu sem er nauðsynleg innan stofnunarinnar.

Markmið sí- og endurmenntunar starfsfólks Austurbrúar eru að starfsfólk viðhaldi þekkingu sinni og færni og fái tækifæri til að vaxa og þroskast í starfi.

Fjölhæfni í menntun, reynslu og hæfileikum starfsfólks er forsenda þess að starfsfólk geti tekist á við fjölbreytt og flókin viðfangsefni Austurbrúar. Sí- og endurmenntun starfsfólks þarf að taka mið af þörfum stofnunarinnar og jafnframt að taka tillit til einstaklingsbundinna óska og þarfa starfsfólks. Starfsfólk skal sýna frumkvæði í að viðhalda og bæta fagþekkingu sína og persónulega hæfni með því að nýta sér tilboð um fræðslu og þjálfun við hæfi hvers og eins. Stjórnendur hvetja starfsfólk til að sinna þessu jafnframt því sem boðin er fram menntun og þjálfun vegna sameiginlegra menntaþarfa starfsfólks.

Austurbrú gerir í árlegri fjárhagsáætlun ráð fyrir kostnaði við sí- og endurmenntun starfsmanna. Á þriggja ára fresti er unnin fræðsluáætlun fyrir þriggja ára tímabil og árlega er gerð framkvæmdaáætlun fyrir komandi ár. Yfirverkefnastjóri innri verkefna ber ábyrgð á þessari vinnu og eftirfylgni áætlunar. Í fræðsluáætlun er m.a. persónubundin starfsþróunaráætlun sem byggir á niðurstöðum starfsþróunarsamtala, viðhorfskannana og/eða öðrum mats- og/eða þarfargreiningaraðferðum.