Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) og Dagmar Ýr Stefánsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri Austurbrúar og SSA, funduðu í vikunni með Ölmu Möller heilbrigðisráðherra um geðheilbrigðismál og heilbrigðisþjónustu á Austurlandi.
Fylgdu þær þar eftir ályktun Haustþings SSA um mikilvægi þess að geðheilbrigðismál á landsbyggðunum verði tekin mun alvarlegar en nú er gert og aðgengi þeirra sem þurfa geðheilbrigðisþjónustu á Austurlandi verði stóreflt.
Á fundinum var farið yfir stöðuna í geðheilbrigðismálum en lýðheilsuvísar sýna að Austfirðingar fara sjaldnast allra til geðlæknis þó neysla geðlyfja sé yfir meðallagi. Lögðu Berglind og Dagmar áherslu að aðgengi að geðlæknum yrði aukið frá því sem nú er, en lýstu jafnframt ánægju með starf geðteymisins á Austurlandi sem mikil aðsókn hefur verið til og æ fleiri bíða þjónustu.
Rætt var um hvernig nýta mætti framlínuna betur í að þjónusta börn og unglinga, bæði i heilsugæslu og skólum og skoða áskoranir í lýðheilsu barna og unglinga og að efla þurfi forvarnarstarf.
Þá var rætt um heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, þ.m.t. hversu hallaði á hana þegar kæmi að þjónustu sérfræðilækna. Ástæða væri til að skoða hvata og aðgerðir til að fjölga sérfræðingum á landsbyggðinni og efla fjarheilbrigðisþjónustu.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn