Geðheilbrigðismál voru sett á oddinn á haustþingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) sem fram fór á Hallormsstað í gær og í dag. „Mat okkar er að stórefla þurfi aðgengi að geðlæknisþjónustu hér á Austurlandi,“ sagði formaður SSA í ræðu sinni og sagði að þrátt fyrir að samfélagið væri slegið yfir þeim áföllum sem dunið hefðu á Austurlandi síðustu mánuði væri það eindreginn vilji kjörinna fulltrúa að beita sér í samstarfi við HSA fyrir því að aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni verði eflt enn frekar.
Sveitarstjórnarfulltrúar á Austurlandi hittust á sínum árlega haustfundi á Hallormsstað í gær og í dag. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra, Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga ávörpuðu fundinn. Fundarmenn unnu að aðgerðaráætlun fyrir svæðisskipulagið sem einnig mun liggja til grundvallar nýrrar sóknaráætlunar er líta mun dagsins ljós fyrir áramót.
Geðheilbrigðismál voru sett á oddinn í ályktun haustþingsins sem samþykkt var í morgun en í henni stendur orðrétt: „Haustþing SSA minnir á mikilvægi þess að geðheilbrigðismál á landsbyggðunum verði tekin mun alvarlegar en nú er gert og aðgengi þeirra sem þurfa geðheilbrigðisþjónustu á Austurlandi stóreflt.“
Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður SSA, mælti fyrir ályktuninni í setningarræðu sinni og sagði m.a.:
„Mikil áföll hafa dunið á Austurlandi undanfarið. Íbúar hafa upplifað endurtekin áföll og mikla sorg með stuttum millibilum. Samfélagið er slegið, sorgmætt, stendur saman og syrgir þá atburði sem hafa gerst í okkar litla samfélagi. Geðheilbrigðismál eru okkur því efst í huga hér á þinginu sem birtist einnig í ályktun okkar sem verður lögð fram í dag. Mat okkar er að stórefla þurfi aðgengi að geðheilbrgiðisþjónustu hér á Austurlandi í samvinnu við HSA.“
Aðrar ályktanir sem samþykktar voru á haustþinginu vörðuðu landsbyggðarskattinn sem settur var á með gjaldskyldu á Egilsstaðaflugvelli, ásamt mikilvægum samgönguúrbótum sem brýnt er að koma í framkvæmd í samræmi við Svæðisskipulag Austurlands. Þá var ályktað um tekjustofna sveitarfélaganna og að gjaldheimta af atvinnugreinum skilaði sér með myndarlegri hætti þangað sem verðmætasköpunin fer fram. Haustþingið brýndi jafnframt stjórnvöld að tryggja næga græna orku á Austurlandi á viðráðanlegu verði.
Ályktanirnar má sjá hér.
Dagmar Ýr Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri SSA og Austurbrúar sem fer með rekstur sambandsins, sagðist sátt við fundinn. „Þetta er tækifæri kjörinna fulltrúa á Austurlandi til að ræða saman um okkar helstu hagsmunamál og það er alltaf jafn ánægjulegt að verða vitni að þeim samhljóm sem ríkir í okkar mikilvægustu málum og markmiðin okkar eru skýr þótt við getum alltaf talað um og skipst á skoðunum um leiðirnar að þeim.“
Kjörnir fulltrúar unnu að undirbúningi nýrrar sóknaráætlunar, aðgerðaráætlunar fyrir landshlutann til fimm ára, á þinginu og sagði Dagmar vinnuna vel á veg komna. „Við vorum að fá fram hugmyndir og áherslur sveitarstjórnarmanna á Austurlandi en á næstu dögum munum við eiga í svipuðu samtali við fulltrúa atvinnulífs, ferðaþjónustu, menningarlífsins og annarra í samfélaginu. Það er von mín að á endanum verðum við með heildstætt plagg með raunhæfum aðgerðum sem mun nýtast okkur til að nálgast þá framtíðarsýn sem sett er fram í Svæðisskipulagi Austurlands. Íí sameiningu getum við eflt Austurland enn frekar.“
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn