Landbúnaður, grænmeti, matur, matarauður, Djúpivogur, atvinnulíf. Ljósmynd: Jessica Auer.

Landbúnaður verði lykilatvinnugrein

Verkefnið Vatnaskil er unnið í samvinnu við Félag ungra bænda á Austurlandi og Búnaðarsamband Austurlands og hlaut það styrk úr byggðaáætlun í febrúar 2023. Það er unnið á grunni Svæðsskipulags Austurlands 2022-2044 þar sem m.a. er kveðið á um að landbúnaður verði áfram ein af lykilatvinnugreinum landshlutans og því er ætlað að sporna við fólksfækkun og auka fjölbreytni í atvinnulífi.

Verkefnið Vatnaskil er unnið í samvinnu við Félag ungra bænda á Austurlandi og Búnaðarsamband Austurlands og hlaut það styrk úr byggðaáætlun í febrúar 2023. Það er unnið á grunni Svæðsskipulags Austurlands 2022-2044 þar sem m.a. er kveðið á um að landbúnaður verði áfram ein af lykilatvinnugreinum landshlutans. Því er ætlað að sporna við fólksfækkun og auka fjölbreytni í atvinnulífi á Austurlandi.

Fundurinn á miðvikudaginn er hluti af verkefninu og sá fyrsti í fundaröð sem heldur áfram fram á vorið. Tilgangur fundarins var aðallega tvíþættur: Annars vegar að auka samtal milli fólks sem brennur fyrir austfirskri matvælagerð og hins vegar að skapa vettvang til að ræða saman um möguleg samstarfsverkefni en opið er fyrir umsóknir í Matvælasjóð.

Fundurinn var settur upp þannig að hann hófst með nokkrum örerindum, hugsuð til að kveikja umræðu í hópastarfi sem hófst að framsögum loknum. Framsögur fluttu þau Benedikt Þ. Guðgeirsson Hjarðar, Ann-Marie Schlutz, Irma Gná Jakobsdóttir, Kimi Tayler, Lára Vilbergsdóttir og Valborg Ösp Á. Warén.

Umræðurnar í hópunum voru afar gagnlegar og munu gagnast í áframhaldandi vinnu við verkefnið. Sem dæmi um það sem bar á góma voru t.d. umræður um regluverk í matvælaframleiðslu, að það væri oft flókið og erfitt viðureignar. Þá kallaði fundurinn eftir betri aðstöðu til að vinna að þróun matvæla þ.e. að tækjabúnaður væri til staðar og í lagi. Þátttakendur fögnuðu tækifærinu til að hittast og mikill vilji er til að halda því áfram og skapa þannig sterk tengsl á milli framleiðenda. Í þessu samhengi var Matarmóti Austurlands, sem haldið hefur verið árlega síðustu haust, hampað mjög. Jafnframt ræddi fundurinn hlutverk verslana í uppbyggingu austfirskrar matvælaframleiðslu og voru fundarmenn sammála um að það væri erfitt að koma vörum inn í stærri verslanir. Finna þyrfti leiðir til að bæta úr því.

Þetta er aðeins brot af því sem var rætt en starfsmenn Austurbrúar fylgdust grannt með umræðunni í hópunum og tóku niður punkta sem haldið verður áfram að vinna með næstu vikurnar. Páll Baldursson, verkefnastjóri hjá Austurbrú, segir næstu skref hjá Austurbrú þau að aðstoða þá sem ætla sér að sækja um í Matvælasjóð en umsóknarfresturinn rennur út 29. febrúar. „Við hvetja alla þá sem eru að vinna með austfirskt hráefni að sækja um og hafa samband við okkur varðandi ráðgjöf og aðra aðstoð,“ segir hann.

Næsti fundur í þessari röð verður að líkindum í lok mánaðar en þá er ætlunin að ræða kornrækt og hvernig auka megi hana á Austurlandi.

Nánari upplýsingar


Páll Baldursson

896 6716 // [email protected]