Um miðjan júlí móttók Austurbrú vottorð sem staðfestir að jafnlaunakerfi stofnunarinnar uppfyllir kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012 og hefur Jafnréttisstofa gefið stofnuninni leyfi til að nota jafnlaunamerkið.

Megintilgangur jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnustöðum. Með þessu á að tryggja jafnan rétt, jöfn laun og sömu réttindi og kjör fyrir sömu, eða jafn verðmæt störf, óháð kyni. Með innleiðingu jafnlaunastaðals er tryggt innan Austurbrúar að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.

Þetta er mikilvægur áfangi fyrir Austurbrú en í jafnréttisstefnu stofnunarinnar kemur fram að gæta skuli þess við ákvörðun launa og fríðinda að kynjum sé ekki mismunað.  Með vottuninni er staðfest að þessi grunnþáttur stefnunnar er uppfylltur.

Leiðrétt kynjahlutfall

Hallað hefur mjög á karlpeninginn hjá Austurbrú enda hafa konur verið í miklum meirihluta umsækjenda um laus störf. Austurbrú hefur sett sér metnaðarfulla aðgerðaráætlun sem m.a. felur í sér að leiðrétta kynjahlutfall og er markmiðið að karlmenn verði fjörutíu prósent starfsfólks fyrir árið 2025.

Á þessu ári hefur kynjahlutfallið farið úr tuttugu prósentum í tæp þrjátíu en betur má ef duga skal og verður rýnihópur settur af stað til að finna leiðir svo ná megi tilsettum markmiðum.