Mikilvægt er fyrir Austurbrú að eiga í opnu og góðu samtali við ferðaþjónustuna og er það hluti af verkþáttum Áfangastaðaáætlunar Austurlands að eiga fund að hausti þar sem hlutaðeigandi geta borið saman bækur, átt samtal og kynnt sér það helsta sem er í brennidepli hverju sinni.

„Fundurinn verður með svipuðu móti og morgunfundirnir með ferðaþjónustufyrirtækjum sem haldnir voru í vor,“ segir Jónína Brynjólfsdóttir hjá Austurbrú en fundirnir verða tveir að þessu sinni, þriðjudagana 10. og 17. nóvember. „Þrátt fyrir að formið væri rafrænt reyndust fundirnir í vor afar vel heppnaðir og afslappaðir og greinilegt að fólk er í góðri æfingu í rafrænni fundarsetu!“

Á fundinum mun María Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, kynna uppfærða Áfangastaðaáætlun. Hreiðar Þór Jónsson hjá Datera verður með stutt erindi um markaðssetningu á tímum heimsfaraldurs. Fyrirtækið vann m.a. fyrir Ferðamálastofu í sumar og aðstoðaði hana við markaðssetningu á samfélagsmiðlum í verkefni sem kallaðist „Ísland – Komdu með”. Þá verður Ásta Kristín Sigurjónsdóttir hjá Íslenska ferðaklasanum með kynningu á Ratsjánni en til stendur af fara af stað með nýtt verkefni í vetur.

Dagskrá:

Áfangastaðaáætlun Austurlands

María Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri Austurbrú

Markaðssetning á tímum COVID

Hreiðar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri Datera

Ratsjáin – kynning

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, Íslenski Ferðaklasinn

Reynslusaga – Benedikta Guðrún Svavarsdóttir, Hafaldan

Umræður

Fundarstjóri: Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu, útflutnings og fjárfestingar hjá Íslandsstofu.

Upplýsingar og skráning


Jónína Brynjólfsdóttir

470 3807 // [email protected]