Á haustin verður ansi líflegt á starfsstöð Austurbrúar á Reyðarfirði. Þá hefst „Stóriðjuskolinn“ svokallaði en þetta er eitt af stærstu símenntunarverkefnum Austurbrúar og kallar því á gott skipulag og utanumhald sem Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir sinnir fyrir okkar hönd í góðu samráði við Fjarðaál.
Í haust hóf nýr hópur grunnnám sem tekur þrjár annir. Þá erum við jafnframt með annan hóp á sinni síðustu önn í framhaldsnámi sem tekur líka þrjár annir. Alls eru fjörutíu og fjórir stóriðjuskólanemendur í námi hjá okkur í dag.
Kennslan fer fram í húsnæði Austurbrúar á Reyðarfirði og mæta nemendur í fjórar til fimm þriggja daga kennslulotur á hverri önn. Í Stóriðjuskólanum er kennt eftir námskrám frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sem sniðin er að þörfum fólks sem starfar við stóriðju.
Starfsfólk Alcoa Fjarðaáls sér alfarið um umsóknarferlið og velur nemendur inn í námið og komast oftast færri að en vilja enda er tilgangur námsins að efla fólk í starfi, auka öryggi í vinnu, gera vinnustaðinn eftirsóknarverðari og að auðvitað á endanum að auka verðmætasköpun. Gert er ráð fyrir því að þeir nemendur sem ljúka bæði grunn- og framhaldsnámi geti seinna meir orðið leiðtogar auk þess sem námið í Stóriðjuskólanum veitir launahækkun.
Námið hefur einnig talsverða þýðingu fyrir Austurbrú. Þetta er eitt af stóru verkefnunum okkar sem fyllir húsakynni okkar á Reyðarfirði af lífi og fjöri á veturna. Fjöldi fólks fær að kenna á námskeiðunum enda eru viðfangsefnin fjölbreytt og kalla á ýmis konar þekkingu. Hjá okkur kenna bæði reyndir kennarar en líka fólk sem er að prófa kennslu í fyrsta sinn. Stóriðjuskólinn á sér orðið nokkuð langa sögu hjá Austurbrú en fyrsti hópurinn hóf nám haustið 2011. Fjöldi fólks hefur haft aðkomu að verkefninu af okkar hálfu en Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir – eða Bobba eins og við köllum hana – hefur annast skólastjórnina síðustu árin og séð til þess að allt sé vel skipulagt og utanumhald tipptopp.
Mynd: Bobba (lengst til hægri) með nemendum sínum í Stóriðjuskólanum.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn