Á þinginu áttu 35 kjörnir fulltrúar sveitarfélaganna sex á Austurlandi sæti. Dagskrá þingsins var með hefðbundnu sniði; fram fóru kynningar, samþykktar voru sameiginlega ályktanir, menningarverðlaun SSA voru veitt og gestur úr hópi sveitarstjórnarmanna heiðraður. Fundinn sátu, auk sveitarstjórnarfólks, flestir þingmenn kjördæmisins.

Fyrri dag þingsins flutti starfsfólk Austurbrúar erindi um verkefnið úrbótagöngu sem unnið er í tengslum við áfangastaðinn Austurland og Sóknaráætlun Austurlands. Þá starfaði sveitarstjórnarfólk í nokkrum nefndum og lagði drög að ályktunum þingsins. Að nefndarvinnunni lokinni voru flutt erindi um eflingu sveitarstjórnarstigsins þar sem sameiningarmál voru í brennidepli.

Heiðursgestur þingsins að þessu sinni var Andrés Skúlason. Andrés er sveitarstjórnarfólki vel kunnur enda starfandi oddviti Djúpavogshrepps til 16 ára. Hann hefur setið í stjórn SSA og fjölda nefnda og stjórna, bæði svæðisbundinna og á landsvísu. Auk þess hefur Andrés látið til sín taka í ýmsum félags- og framfaramálum.

Menningarverðlaun SSA 2019 hlaut Gunnarsstofnun. Stofnun rekur menningar- og fræðasetur á Skriðuklaustri og stendur þar fyrir fjölbreyttri og lifandi menningarstarfsemi allt árið um kring. Gunnarsstofnun hefur verið leiðandi afl í menningarstarfsemi á Austurlandi, allt frá stofnun árið 1997, með kjörorð stofnunarinnar – metnað, framsýni og samstarf – að leiðarljósi.