Námskeiðið sóttu tæplega 70 starfandi hreindýraleiðsögumenn en töluvert er um liðið síðan síðast var haldið námskeið fyrir þennan hóp. Fyrir dyrum stendur að hanna námsefni fyrir grunnnámskeið til að auka nýliðun og um leið tryggja gæði í starfi leiðsögumannanna. Starf hreindýraleiðsögumannsins er fjölþætt og snýst um þekkingu á hreindýraveiðum, átthagafræði, öryggismálum og þjónustufærni. Ánægja var með námskeiðið sem var í formi fyrirlestra og vinnustofu þar sem hópurinn lagði til mikilvæga punkta sem nýtast við þróun námskeiða. Þar var viðfangsefnið fyrst og fremst spurningin hvað felst í starfi hreindýraleiðsögumannsins og þar undir var spurt um umgengni við náttúruna, meðferð bráðar og samskiptafærni.

Endurmenntunarnámskeiðið verður endurtekið fimmtudaginn 9. júní fyrir þá sem ekki áttu heimagengt á þetta námskeið.