Deildu reynslunni með okkur

Við viljum vita hvernig íbúar Austurlands nýta landsins gæði og höfum þess vegna hleypt af stokkunum rannsókn á því hver þau eru í dag og hvernig við erum að nýta þau. Í fréttinni hér að neðan er að finna hlekk á könnunina og auk þess boð í rýnihópastarfi.

Sumarið 2023 fékk Austurbrú styrk frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti til að vinna að verkefni sem hlaut nafnið „Landsins gæði – matur í náttúru Austurlands.“ Markmiðið er að ná betri yfirsýn yfir nýtingu íbúa á þessum gæðum landshlutans, hver þau eru í dag og hvaða möguleikar felast í aukinni þekkingu og vitund um þessi mál með áherslu á sjálfbæra nýtingu.

Framkvæmd verkefnisins er skipt í þrjá hluta og er fyrsta hluta lokið. Hann fólst í skipulagningu svonefnds Matarmóts á Egilsstöðum sl. haust þar sem austfirskir matvælaframleiðendur kynntu vörur sínar, haldnar voru fjölbreyttar málstofur og þá fór fram aðalfundur Austfirskra krása (klasasamstarf matvælaframleiðenda og veitingahúsa á Austurlandi).