Tilgangur og markmið jafnréttisstefnu er að stuðla að jafnri stöðu og jöfnum tækifærum allra starfsmanna Austurbrúar óháð kynhneigð, þjóðerni, kynþætti, litarhætti, stjórnmálaskoðunum og trú, eða öðrum slíkum persónubundnum atriðum. Samþætting jafnréttissjónamiða skal höfð að leiðarljósi við alla stefnumótun og ákvarðanatöku hjá stofnuninni. Jafnréttisstefna Austurbrúar er m.a. byggð á lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu karla og kvenna. Stjórnendateymi Austurbrúar ber ábyrgð á jafnréttisstefnunni.
Stefnumið Austurbrúar í jafnréttismálum eru að:

• Tryggja starfsmönnum vinnuumhverfi þar sem mismunun á grundvelli ofangreindrar atriða er ekki til staðar og einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni eða annars konar ofbeldi er ekki liðið.
• Mismuna ekki á grundvelli ofangreindra atriða við ráðningar eða ákvarðanir um laun og önnur starfstengd kjör.
• Bjóða upp á fjölskylduvænt vinnuumhverfi eftir því sem við verður komið miðað við eðli starfs hverju sinni.
• Stuðla að jafnvægi í hlutföllum kynja í starfsmannahópi Austurbrúar.

Ráðningar og auglýsingar

Starfsauglýsing skal að alla jafnan höfða til umsækjenda óháð kyni. Ávallt skal þess gætt að umsækjandi sem metinn er hæfastur til að gegna starfi sé ráðinn. Séu tveir sem eru metnir jafnhæfi af hvoru kyni skal sá sem er af því kyni sem á hallar ráðinn.

Jöfn laun

Við ákvörðun launa og annarra starfskjara og hlunninda skal þess gætt að ekki sé mismunað á grundvelli kyns eða að önnur ólögmæt mismunun eigi sér stað á grundvelli fyrrgreindra persónubundinna atriða. Jafnræðis skal gætt við úthlutun verkefna, tilfærslur í störfum, tækifæri til símenntunar, veitingu tækifæra til að axla ábyrgð og ákvarðana varðandi framgang í starfi og uppsagnir.

Vinnuumhverfi

Í daglegum störfum innan Austurbrúar skal þess gætt að ekki sé mismunað vegna kynhneigðar, þjóðernis, kynþáttar, litarháttar, stjórnmálaskoðana eða trúar, og skulu starfsmenn hafa jafna möguleika á að nýta hæfileika sína og þekkingu á sem bestan hátt.

Starfsmenn skulu haga tali sínu og athöfnum þannig að það endurspegli hvorki neikvæð eða lítilsvirðandi viðhorf á grundvelli framangreindra þátta né vegi að jafnri stöðu og jafnrétti á nokkurn hátt. Einelti, í hvaða mæli eða mynd sem það birtist, er ekki liðið hjá Austurbrú. Með einelti er átt við hvers konar ámælisverða eða síendurtekna ótilhlýðilega háttsemi sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Hér er ekki átt við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kann að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna.

Kynferðisleg áreitni viðgengst ekki hjá Austurbrú. Með kynferðislegri áreitni er átt við kynferðislega hegðun sem er ósanngjörn og/eða móðgandi og í óþökk þess sem fyrir henni verður, hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess eða þeirra sem fyrir henni verða og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Kynferðisleg áreitni getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn.

Starfsmenn sem telja sig verða fyrir kynferðislegri áreitni, ofbeldi eða einelti skulu tilkynna það til þess í stjórnendateyminu sem þeim hentar að ræða við og/eða til trúnaðarmanns. Þessum aðilum ber að taka slíka tilkynningu alvarlega og rannsaka málið og geta m.a. kallað til utanaðkomandi rágjafa. Jafnframt geta starfsmenn snúið sér síns stéttarfélags og fengið ráðgjöf.

Samræming fjölskyldu og atvinnulífs

Öllum starfsmönnum skal gert kleift, eins og unnt er, að samræma fjölskyldulíf sitt og atvinnu, m.a. með sveigjanlegum vinnutíma. Hvatt er til þess að báðir foreldra nýti fæðingar- og foreldraorlof ásamt því að sinna börnum í veikindum.