Matarmót Matarauðs Austurlands verður haldið á morgun, 21. október, í Hótel Valaskjálf frá kl. 12:00 til 17:00. Þar verða í boði málstofur auk þess sem matvælaframleiðendur á Austurlandi kynna sína framleiðslu og bjóða upp á smakk. Hvort sem þú ert veitinga- eða söluaðili, langar að hefja framleiðslu eða ert áhugamanneskja um austfirskan mat og matarmenningu, þá er þetta viðburður fyrir þig.
Þetta er í annað sinn sem blásið er til Matarmóts Matarauðs Austurlands en það er Austurbrú sem annast skipulagningu og verkefnastjórn. Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir, verkefnastjóri Austurbrúar, er einn skipuleggjenda og hún segist afar ánægð með að endurtaka leikinn. „Þetta tókst vonum framar í fyrra,“ segir hún. „Það var því einstaklega ánægjulegt að okkur skyldi takast að fjármagna þetta aftur núna í ár. Við fengum veglega styrki frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og Sóknaráætlun Austurlands og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.“
Austurland er ríkt af auðlindum og ber yfirskrift mótsins þess vitni en hún er „Landsins gæði – matur í náttúru Austurlands“ að þessu sinni. „Við erum svo lánsöm hér á Austurlandi að gersemar náttúrunnar má finna allt um kring,“ segir hún. „Mörg okkar búa við sjó og stutt í fiskmeti, önnur búa í blómlegum sveitum þar sem kjöt-, grænmetis- og mjólkurframleiðsla fer fram. Við erum rík af villibráð, berjum, jurtum, þara og sveppum og gæðin og aðgangur að þessum auðlindum ætti að vera sjálfsagður. En er það svo? Höfum við aðgang að öllum þessum gæðum? Getum við, sem búum í sjávarþorpum keypt fisk sem veiddur er af sjómönnum í okkar heimabyggð? Geta íbúar í sveitum keypt kjöt beint frá býli? Má ég tína ber og selja – get ég farið niður í hvaða fjöru sem er og sótt mér þara og gert mér pening úr? Því miður er svarið við sumum af þessum spurningum nei og stundum er svarið á reiki,“ segir Halldóra og bætir við:
„Vonandi erum við öll sammála því að tækifærin og möguleikarnir eru óþrjótandi. Hugvitið, hugrekkið og nýsköpunarhugsunina vantar ekki hingað á Austurlandið. Það er hins vegar alltaf hægt að gera betur og það er von okkar, sem að Matarmótinu stöndum, að viðburður sem þessi geti orðið sá stökkpallur sem til þarf, til að auka samstarf og samtal og til að hnika málum til.“
Við hjá Austurbrú hvetjum allt áhugafólk um nýtingu, sjálfbærni, hringrásarhagkerfi, hliðarafurðir, samstarf, matarhefðir, nýsköpun, ábyrga neyslu til að mæta. Eða með öðrum: Hafir þú áhuga á mat og matargerð er Matarmót Matarauðs Austurlands fyrir þig!
Lokað er fyrir skráningar hjá sýnendum en gestir verða skrá sig líka og það er gert hér.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn