Mæting var einstaklega góð en það var húsfyllir í Ársal þar sem málþingið fór fram. Erindin sem flutt voru á málþinginu voru fjölmörg og hvert öðru áhugaverðara.

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækja í Landbúnaði, fjallaði um framþróun hefðbundinnar matvælaframleiðslu. Í erindi hennar, sem kallaðist Rætur framtíðar, kom m.a. fram að Ísland væri land grasbíta og að við ættum að einbeita okkur að framleiðslu slíkra matvara.

Næstur var Karvel L. Karvelsson, framkvæmdastjóri Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins. Í erindi sínu, sem kallaðist Framtíð ráðunautarins, fékk hann m.a. gervigreind til að aðstoða sig við að komast að því hver hún er. Hann minnti fundarmenn á að kíkja inn í samráðsgáttina en þar má m.a. finna nýja aðgerðaáætlun landbúnaðarstefnu stjórnvalda.

Guðmundur Stefánsson, fagsviðsstjóri hjá Matís, spurði í sínu erindi hvort eitthvað mætti læra af sjávarútveginum. Hann taldi mikilvægt að áhersla bænda væri á verðmæti fremur en magn og að mikilvægt væri að leggja áherslu á virðisaukandi verkefni.

Erla Sturludóttir, dósent við LBHÍ, spurði hvort rannsóknir í landbúnaði skipti máli. Niðurstaða hennar var sú að þær séu klárlega lykilatriði í landbúnaði framtíðarinnar.

Gunnar Þorsteinsson, formaður Bændasamtaka Íslands, fjallaði um hverjir væru á „framtíðarvagninum“ og minnti í leiðinni á átakið Ísland staðfest.

Steinþór Logi Arnarson, bóndi í Dölum og formaður ungra bænda, flutti erindi sem bar heitið: „Hver verða skrefin til framtíðar?“ Hann blés fundarmönnum bjartsýni og jákvæðni í brjóst og fjallaði m.a. um mikilvægi þess að bændur kynni starfið fyrir börnum og ungmennum og endaði erindið sitt á því að segja að stöðnun væri ekki valkostur, að mikilvægt væri að sýna ábyrgð og sækja fram.

Karólína Elísabetardóttir, bóndi úr Hvammshlíð, flutti síðasta erindið. Hún er fædd og uppalin í Þýskalandi og lagði mikla áherslu á sérstöðu íslensks landbúnaðar í sínu máli þ.e. að hann sé fyrst og fremst dýravænn og náttúruvænn.

Mynd efst: F.v. Dagrún Drótt Valgarðsdóttir hjá Könglum, Ann-Marie Schlutz hjá Sauðagulli, Oddný Anna Björnsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka smáframleiðenda matvæla á Íslandi og Beint frá býli, Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir frá Austurbrú,  Þorbjörg Ásbjörnsdóttir (Obba) frá Geitagulli og Lilja Sigurðardóttir frá Ormsstöðum.