Hvað er Eygló?

Eygló er samstarfsverkefni á grunni hringrásarhagkerfis, orkuskipta og nýsköpunar á Austurlandi, heitið vísar til öflugasta orkugjafans, sólarinnar, og til bjartrar og kraftmikillar framtíðar. Meginmarkmið Eyglóar er að efla nýsköpun og þróun, með áherslu á að bæta nýtni hliðarstrauma og flétta þá inn í nýja verðmætasköpun. Þetta styður við vöxt sprotafyrirtækja og fjölgar tækifærum til þátttöku í alþjóðlegum rannsókna- og þróunarverkefnum í samstarfi við fyrirtæki á svæðinu. Ætlunin með Eygló er að leiða saman aðila til að afla alþjóðlegs fjármagns til tilrauna, rannsókna og þróunar á orku- og loftslagsvænum lausnum.

Um starfið

Við leitum að einstaklingi sem býr yfir haldbærri stjórnunarreynslu og hefur skilning og þekkingu á hringrásarhagkerfinu. Sérþekking á sviði orkuskipta og nýsköpunar er mikill kostur. Starfið felst í umsjón með þeim verkefnum sem tilheyra Eygló, nýjum málaflokki innan Austurbrúar. Starfsmaður mun koma að uppbyggingu og mótun verkefna á grundvelli samnings Austurbrúar við Landsvirkjun, umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytisins og sveitarfélaganna á Austurlandi. Við leitum að einstaklingi sem hefur leiðtogahæfni, er fljótur að koma auga á tækifæri og möguleika og getur unnið sjálfstætt. Ennfremur ber yfirverkefnastjóri ábyrgð á öflun nýrra verkefna og hefur umsjón með tilrauna- rannsóknar og þróunarverkefnum m.a. með því að afla styrkja og leiða saman aðila. Hlutverk yfirverkefnastjóra er að styðja við nýsköpun og sprotastarfsemi sem tengist málaflokknum með samstarfi við fyrirtæki og stofnanir.

Ef þú vilt vinna á faglega spennandi og skemmtilegum vinnustað, þar sem hvatinn er efling hringrásarhagkerfisins á Austurlandi, þá er þetta starfið fyrir þig. Sterk krafa er um að viðkomandi hafi hæfni og áhuga á að vinna í hóp og geti leitt teymisvinnu og stýrt verkefnum á árangursríkan og skilvirkan hátt.

 

Ábyrgðarsvið

  • Ábyrgð á mótun og framkvæmd verkefna málaflokksins
  • Aðkoma að rekstri, m.a. öflun samstarfsaðila, styrkja og fjármagns
  • Skipulag og uppbygging á tækifærum Eyglóar með hringrásarhugsun að leiðarljósi
  • Samskipti, samstarf og samvinna við hagaðila og samningsaðila
  • Ábyrgð og þátttaka í verkefnum stjórnendateymis Austurbrúar
  • Þátttaka og tenging við önnur verkefni á starfssviði Austurbrúar á grunni Eyglóar

Kröfur

  • Háskólapróf á framhaldsstigi sem nýtist í starfi
  • Haldbær reynsla og þekking af stjórnun, rekstri og áætlanagerð
  • Góð hæfni í mannlegum samskiptum og færni í að koma frá sér efni
  • Brennandi áhugi á sviði hringrásar, orkuskipta og nýsköpunar
  • Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum
  • Tækniþekking sem nýtist í starfi er kostur
  • Góð færni í íslensku og ensku

Umsókn skal fylgja

  • Ferilskrá
  • Ítarlegt kynningarbréf þar sem fram koma forsendur umsóknar og hvernig umsækjandi uppfyllir starfskröfur.

Gögnin skal senda til Tinnu Halldórsdóttur yfirverkefnastjóra innri mála – [email protected]

Frekari upplýsingar veitir Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar – [email protected]

Umsóknarfrestur er til og með 26. mars 2023.

Óskað er eftir að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst. Búseta á Austurlandi er skilyrði og mun starfsstöð taka mið af búsetu viðkomandi. Laun eru greidd samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Fræðagarðs. Austurbrú er þverfaglegur og spennandi vinnustaður sem er leiðandi í stoðþjónustu á Austurlandi hvað varðar atvinnulíf, menntun, byggðaþróun og menningu.