Í Fjarðabyggð er metnaðarfullt starf fyrir ungt fólk á sviði lista og menningar og þar á meðal eru fjölbreyttar listasmiðjur og listsýningar í Fjarðabyggð sumarið 2022. Verkefnið er í umsjá Menningarstofu Fjarðabyggðar og undirbúningur staðið yfir frá áramótum. Smiðjurnar hófust í liðinni viku með góðum undirtektum. Úrvalið er fjölbreytt og skráning hefur aldrei verið betri. Í boði eru fimm listasmiðjur; spuna- og leiklistarsmiðja, teiknikennsla og persónusköpun, hipphopp, rapp og framkoma, hljóðlist og tónlistargjörningar ásamt ljósmyndasmiðju. Menningardagskrá Menningarstofu Fjarðabyggðar mun ásamt listasmiðjum innihalda innsetningar, myndlistasýningar, gjörningar list og tónleika og fleira. Listsýningar hefjast um miðjan júlímánuð meðfram menningar- og listahátíð Fjarðabyggðar sem kallast Innsævi.
 

Spuna- og leiklistarsmiðjan fór fram á Reyðarfirði í liðinni viku.

Uppbyggingarsjóður styður við tvö verkefni í Fjarðabyggð í ár til eflingar listmenningu ungs fólks og fór hitt verkefnið, Upptakturinn á Austurlandi, fram í vor í umsjá Tónlistarmiðstöðvar Austurlands. Í Upptaktinum fá áhugasamir krakkar í 5.-10. bekk tækifæri til að taka þátt í tónsmíðavinnustofum undir leiðsögn tónlistarmanna. Að loknum vinnustofum er tilnefndur ungur tónsmiður til áframhaldandi þátttöku í smiðjum á vegum Upptaktsins í Reykjavík. Verkefnið gekk virkilega vel í ár og komust tveir þátttakendur frá Austurlandi með verk sín í Upptaktinn í Hörpu en það voru þær Gyða Árnadóttir og Ína Berglind Guðmundsdóttir.
 

Þátttakendur Fjarðabyggðar í Upptaktinum í Hörpu.

Myndir: Menningarstofa Fjarðabyggðar.