Á þriðju hæð Hafnarhússins á Borgarfirði eystri mætast menningarheimar lista og hafnarlífsins í sýningarýminu Glettu sem hefur það markmið að efla menningarlíf á Borgarfirði og auka fjölbreytileika menningarviðburða. Markmiði þessu er framfylgt með því að fá erlent og innlent listafólk til Borgarfjarðar og sýna. Uppbyggingarsjóður styður Glettu við sýningardagskrá í sumar. Sú dagskrá samanstendur af fjórum fjölbreyttum sýningum:

Sýningin Kinship opnaði sunnudaginn 5. júní. Til sýnis eru ljósmyndir og skúlptúrar eftir listakonuna Senya Corda. Lokadagur sýningar er 22. júní.

Sýningin Tómið uppmálað eða Filling the void, eftir listafólkið Styrmi Örn Gunnarsson og Agöthu Mickiewicz hefst svo 26. júni og stendur til 12. júlí. Þar verða til sýnis teikningar, málverk og textílverk.

Afkomendur eftir Elsu Katrínu Ólafsdóttur ljósmyndara tekur svo við þann 15. júlí en á þeirri sýningu verða til sýnis portrait-myndir af Borgfirðingum og öðrum sem ættir eiga að rekja til Borgarfjarðar. Hægt verður að ráða í það hvort svipur sé með öllum Borgfirðingum. Sýningin stendur yfir til 17. ágúst.

Síðasta sýning sumarsins hefst svo 20. ágúst. Þar blæs hópur listamanna til fjölbreyttrar sýningar þar sem veggverk verða í fyrirrúmi; málverk og teikningar einkum ásamt einhverjum skúlptúrum. Listamennirnir eru þau Baldur Örn Helgason, Patty Spyrakoz, Indriði Arnar Ingólfsson, Kristín Helga Ríkarðsdóttir ásamt Magnúsi Erni Magnússyni.

Vert er að er gera sér leið á Borgarfjörð í sumar. Spennandi og öflugt menningarstarf verður í Glettu og í leiðinni er hægt að skoða lundann eða gæða sér á veitingum á veitingahúsum Borgarfjarðar.