Málþingið var haldið í beinu framhaldi af aðalfundi SSA og ársfundi Austurbrúar sem fram fóru fyrr um daginn. Í máli Dagmarar Ýr Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Austurbrúar, kom fram að hún sæi fyrir sér að umræðan á málþinginu yrði gott veganesti í mótun nýrrar sóknaráætlunar sem nú stendur fyrir dyrum.

Fram komu á málþinginu Ágúst Bogason, sérfræðingur hjá Nordregio, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, verkefnastjóri hjá SSNE, Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, Jens Garðar Helgason, aðstoðarforstjóri Fiskeldis Austfjarða hf., Elín Eik Guðjónsdóttir, formaður ungmennaráðs Fjarðabyggðar og Daði Guðjónsson, sérfræðingur hjá Íslandsstofu.

Ágúst fjallaði um aðdráttarafl landsbyggðarinnar í sínu erindi og þá hvata sem eru fyrir flutningum til og frá landsbyggðinni, hvernig fjarvinna hefur breytt veruleika fólks og gert því kleift að setjast að úti á landi. Hann hvatti Austfirðinga til að hugsa ekki eingöngu um hvers vegna fólk flytur heldur líka hvers vegna fólk flytur ekki. Hvað er það sem fólki líkar við heimkynni sín? Markmiðið ætti ætíð að vera að skapa aðlaðandi stað þar sem fólk getur hugsað sér að lifa og starfa.

Daði fjallaði um markaðssetningu Austurlands í erindi sem kallaðist „Mörkun áfangastaðar“. Hann sagði möguleika Austurlands mikla og að hægt væri að skapa enn meiri eftirspurn eftir því sem landshlutinn hefur upp á að bjóða. Hann hrósaði heimamönnum fyrir vandað kynningarstarf á síðustu árum og sagði þá hafa góða tilfinningu fyrir því í einhverju góð markaðssetning væri fólgin.

Sigurborg Ósk flutti afar áhugavert erindi um skipulagsmál og samhengi þeirra við mannlíf og þróun samfélaga. Hún útskýrði muninn á bílmiðuðu og sjálfbæru skipulagi þar sem áhersla væri lögð á þéttingu byggðar, umhverfisgæði og fjölbreytta ferðamáta. Hún hvatti sveitarfélög að samþætta skipulag landnotkunar og vistvænna ferðamáta, að umferðarskapandi starfsemi væri skipulögð í göngufæri frá sem flestum íbúum og/eða stofnleiðum hjólastíga og almenningssamgangna. Þá mælti hún ennfremur með því að þjónusta, sem spilar stórt hlutverk í daglegu lífi fólks eins og t.d. matvöruverslanir og stofnanir, sé í göngufæri við sem flesta íbúa.

Elín Eik lýsti þörfum ungs fólks á Austurlandi í sínu erindi. Hún sagði ungt fólk vera með miklar væntingar þegar kæmi að aðgengi að góðri og sérhæfðri heilbrigðisþjónustu og nefndi þar sérstaklega sérfræðinga í líðan og andlegu heilbrigði ungmenna. Hún ræddi um menntun og mikilvægi þess að auka framboð á fjarnámi t.d. á sérhæfðu námi. Þá vakti hún athygli á mikilvægi þess að fjölbreyttari atvinnumöguleikar væru fyrir hendi. Í því sambandi hvatti Elín Eik fyrirtæki í landshlutanum til að taka höndum saman og kynna þau störf sem í boði eru á Austurlandi. Í framhaldi af erindi Elínar vakti Dagmar Ýr athygli á viðburði sem sveitarfélög og fyrirtæki standa fyrir snemma í haust, viðburði sem kallast „Starfamessa“ og er unnið að með aðstoð Austurbrúar.

Eyjólfur fjallaði um byggðaþróun síðustu áratuga og minnti á að það væri mannanna verk að stærsti hluti þjóðarinnar byggi á einu og sama horninu. Sú þróun hefði verið ótrúlega hröð (um fimmtíu ár) og sagði hann að henni væri hægt að snúa við. Hann hvatti sveitarfélög á norðanverðu landinu (Vestfirði, Norðurland og Austurland) að vinna meira saman því þau stæðu flest frammi fyrir sömu áskorununum. Hann talaði um breytt samfélagsmynstur eftir heimsfaraldurinn, nýja tækni (t.d. gervigreind) og samfélagsáhrif hennar. Þá hvatti hann landsbyggðirnar til að efla erlent samstarf.

Lokaerindið flutti Jens Garðar. Hann sagði Austurland „lögheimili raunhagkerfisins“, verðmætasköpun væri mikil í landshlutanum og hún gæti verið enn meiri ef stjórnvöld byggðu upp enn sterkari innviði á sviði heilbrigðisþjónustu, orku- og skipulagsmála, menntun og að sjálfsögðu samgangna. Þannig mætti virkja mátt einstaklinsframtaksins enn betur á Austurlandi.

Málþingið Öflugra Austurland tókst afar vel, um fimmtíu manns sóttu það og tóku þátt í umræðum.

Austurbrú vill þakka öllum sem mættu og einkum og sér í lagi framsögumönnum sem sumir hverjir voru komnir langt að.