MatAttack

Fögnum matargerð á Austurlandi!

Föstudaginn 1. október fer fram Matarmót Matarauðs Austurlands. Þar gefst matvælaframleiðendum á Austurlandi tækifæri til að kynna vörur sínar fyrir væntanlegum kaupendum, söluaðilum og samstarfsaðilum í greininni.

Matargerð er á miklu flugi á Austurlandi og hér er að finna fjölbreytt úrval veitingastaða og framleiðenda sem vinna með staðbundin hráefni. Matarmótið á uppruna sinn í verkefni á vegum Austurbúar sem kallast Matarauður Austurlands. Ein afurð þess verkefnis er m.a. gagnagrunnur um austfirska matvælaframleiðendur sem finna má á vefsíðunni Austurland.is

„Við höfum orðið vör við það að það vantar að skapa frekari tengingar á milli framleiðenda á svæðinu annars vegar og söluaðila hins vegar þ.e. þeirra sem búa til og þeirra sem selja, hvort sem það er í verslunum eða á veitingahúsum,“ segir Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, en fljótlega var ákveðið að tengja Matarmótið við ráðstefnuna Nordic Food in Tourism og Hacking Austurland og slá upp allsherjar matarveislu sem kölluð er Okkur að góðu.

Matarmótið verður haldið föstudaginn 1. október í Valaskjálf. „Við hjá Austurbrú viljum með þessum hætti skapa vettvang fyrir fólk úr matargeiranum til að hittast, kynna sína vöru og vonandi verður stofnað til samstarfs á milli fólks í framhaldinu,“ segir Alda Marín Kristinsdóttir hjá Austurbrú og bætir við: „Það er auðvitað eitt af hlutverkum Austurbrúar að liðka fyrir samstarfi fólks í landshlutanum þótt við gerum ekki annað en að skapa tækifæri fyrir fólk til að hittast og það er okkar upplifun að fólk í þessum geira hafi verið að kalla eftir þessu.“

En hver er tilgangurinn með þessu?

„Við viljum auðvitað fyrst og fremst auka aðgengi að austfirskum matvælum,“ segir Halldóra. „Það er ótrúlega mikið framleitt af mat í landshlutanum og ég held að fólk geri sér almennt ekki grein fyrir því.“

„Austurland hefur alla burði til að verða áfangastaður sem þekktur er af ljúffengum mat, unnin úr ferskum hráefnum svæðisins,“ bætir Alda við. „Landshlutinn hefur auðvitað ákveðna sérstöðu hvað þetta snertir og við eigum að nýta okkur hana til fulls.“

Skráning á Matarmót fer fram hér.

Boðsbréf – framleiðendur

Boðsbréf – sölu- og veitingaaðilar og áhugafólk um austfirska matarmenningu

Nánari upplýsingar


Alda Marín Kristinsdóttir

[email protected]


Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir

470 3871 // [email protected]