Taktu daginn frá!

Matarmót Matarauðs Austurlands verður laugardaginn 11. nóvember í Valaskjálf, Egilsstöðum.

Skráning

Dagurinn hefst klukkan 10 á málþingi sem ber yfirskriftina Landsins gæði. Þar mun Erna Rakel Baldvinsdóttir, starfsmaður rannsóknar- og greiningarteymis Austurbrúar, fara yfir niðurstöður könnunar sem lögð var fyrir íbúa Austurlands í vor þar sem m.a. var spurt um það hver landsins gæði eru á Austurlandi og hvort og þá hvernig íbúar eru að nýta þau og ýmislegt fleira. Þá verður einnig farið yfir niðurstöður úr samtölum við um tuttugu hagaðila sem hittust á tveimur rýnihópafundum.

Á málþinginu taka síðan til máls Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, Ragna Óskarsdóttir, eigandi Íslensks dúns, Guðbjörg Gissurardóttir og Jón Árnason, eigendur Í boði náttúrunnar, og Kristín María Sigþórsdóttir, upplifunarhönnuður. Að afloknum fyrirlestrum verða pallborðsumræður.

Eftir málþingið verður boðið upp á hádegisverð þar sem hráefni frá Austurlandi verður í aðahlutverki (skráning nauðsynleg) og að því loknu, klukkan 13:30, hefst Matarmótið formlega. Fyrsta klukkutímann verður mótið lokað og þá fá veitinga- og söluaðilar matvæla, starfsfólk mötuneyta, heimilisfræðikennarar, verslunarstjórar og aðrir hagaðilar tækifæri til að ræða við framleiðendur, mynda tengsl og ræða samstarf. Klukkan 14:30 verður húsið opnað og þá eru öll velkomin að kíkja í Valaskjálf, bragða á ljúffengum mat og njóta þess besta sem matvælaframleiðendur á Austurlandi bjóða upp á. Í lok dags, frá 17 – 18, verður haldinn aðalfundur Austfirskra krása og er áhugafólk um starfsemi félagsins hvatt til að mæta.

Í ár verður bryddað upp á þeirri nýjung að matvælaframleiðendur, sem eru með „mat í mótun“, eru sérstaklega boðnir velkomnir. Óskað er eftir þátttöku þeirra sem eru að framleiða matvöru heima en hafa ekki tekið lokaskrefið í að sækja um starfs- og framleiðsluleyfi. Því til viðbótar ætlum við að bjóða framleiðendum frá Austurlandi, sem eru að framleiða vörur (aðrar en mat) úr austfirsku hráefni, að vera með okkur. Þeir aðilar verða að vera með framleiðsluleyfi fyrir vörurnar sínar. Þau sem telja sig tilheyra öðrum hvorum hópnum eru hvött til að skrá sig og/eða hafa samband við verkefnastjóra Matarauðs Austurlands.

Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir, verkefnastjóri Matarmóts Matarauðs Austurlands, segir að mikil tilhlökkun sé hjá stýrihópnum sem unnið hefur að undirbúningi viðburðarins frá því í vor. Samstarfið við Austfirskar krásir hafi einnig verið ánægjulegt og hópurinn sem að skipulaginu kemur þéttur og fjölbreyttur.