„Jú, þetta er mikill léttir,“ sagði hún að lokinni undirritun. „Þetta hefur verið langt en ofboðslega skemmtilegt ferli sem fjöldi fólks hefur komið að. Við höfum verið að ræða framtíðina, hvert erum við að fara og hvers vegna. Nú er komin niðurstaða í það samtal. Þá þarf að fara huga að næstu skrefum og vinna að þeim verkefnum sem lagt er upp með í skipulaginu.“

Eins og Jóna Árný segir var vinnan við gerð svæðisskipulagsins fyrst fremst fólgin í umræðum innan svæðisskipulagsnefndar Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. Í henni sitja fulltrúar sveitarfélaganna auk fólks sem skipað var í nefndina og kom að málefnavinnunni sem er grunnurinn að þeim áherslum er finna má í skipulaginu. Að auki fékk naut nefndin aðstoðar ráðgjafafyrirtækisins ALTA. „Svo kynntum við málefnin reglulega fyrir hagsmunaaðilum sem höfðu tækifæri til að koma með athugasemdir og ábendingar,“ segir hún en tillaga að skipulaginu var auglýst til umsagnar sl. vor og sumar. Bárust samanlagt á fjórða tug athugasemda sem nefndin vann úr. „Þannig að það kom mikill fjöldi fólks að þessari vinnu og framtíðarsýnin sem nú liggur fyrir er afrakstur þessa samtals,“ segir hún.